Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi alþingismaður og ráðherra

Sólveig Pétursdóttir varð stúdent frá MR 1972 og lögfræðingur frá HÍ 1977. Hún hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum í gegnum tíðina, var alþingismaður, dóms- og kirkjumálaráðherra og forseti Alþingis svo nokkuð sé nefnt.

Sólveig og eiginmaður hennar, Kristinn Björnsson, fyrrverandi forstjóri Skeljungs, höfðu verið lífsförunautar frá 1973 þegar hann lést fyrir rúmum tveimur árum. „Eðlilega verður gífurleg  breyting á lífi manns við makamissi,“ segir Sólveig. „Það tók mig nokkurn tíma að átta mig á nýju hlutverki því nú var ég orðin ekkja. Það var ekkert í stöðunni annað en að halda áfram þótt sorgin væri mikil. Við Kristinn vorum búin að festa kaup á íbúð á einni hæð í fjölbýli þegar hann var orðinn veikur og ljóst var að fyrrverandi húsnæði hentaði ekki lengur. Hann lést áður en við gátum flutt þangað en nú er ég búin að koma mér þar vel fyrir,” segir Sólveig. “Við þá lífsreynslu að missa einhvern nákominn fer maður að átta sig á hversu mikilvægt það er að lifa lífinu núna. Allt sem ég hafði ætlað að gera en hafði ekki haft tíma til eða ætlaði alltaf að gera seinna var orðið of seint að gera með Kristni og þá varð svo kristaltært hversu miklu máli skiptir að nota tímann sem við höfum með ástvinum okkar. Ég hef verið svo heppin að lifa mjög innihaldsríku lífi með öllum trúnaðarstörfum sem ég hef gegnt. Þetta voru allt mjög áhugaverð og skemmtileg störf, en krefjandi. Nú finn ég að það er ákveðið frelsi fólgið í því að vera ekki opinber persóna og ég nýt þess.”

Hver er sinnar eigin gæfu smiður

Sólveig og Kristinn eiga þrjú börn og barnabörnin eru orðin fjögur. Móðir hennar er 91 árs og er hennar besta vinkona, en Sólveig segir fjölskylduna vera sér geysilega mikilvæga. “Það skiptir mig miklu máli að hafa tíma til að sinna bæði fjölskyldu og vinum. Móðir mín er mér góð fyrirmynd, hún kvartar aldrei og henni leiðist aldrei. Hún hefur kennti mér að hver sé sinnar gæfu smiður, sem er lífsmottó sem mér finnst gott að hafa ofarlega í huga. Ég er afskaplega heppin að vera heilbrigð og meðan svo er reyni ég að rækta bæði sál og líkama. Ég stunda líkamsrækt, spila  bridds reglulega og les mikið.

Golfíþróttin sáluhjálp

Sólveig segist hafa tekið upp á því að spila golf eftir að hún hætti á þingi. Henni þykir golfið óskaplega skemmtileg íþrótt sem hafi hjálpað sér mikið í gegnum veikindi og fráfall Kristins. „Ég upplifði golfið strax sem ákveðna lífsleikni,“ segir Sóveig. „Maður er alltaf að keppa við sjálfan sig og að reyna að bæta eigin árangur ásamt því að keppa við aðra. Golfið er góð heilsurækt og svo upplifi ég  náttúruna á annan hátt en ef ég er bara á göngu. Það eru til svo margir golfvellir um allt land þar sem er mikil náttúrufegurð. Við Kristinn vorum mjög áhugasöm um að ferðast innanlands, enda eigum við Íslendingar einstaklega fallegt land. Þess vegna nýt ég þess ríkulega að sameina ferðalög golfíþróttinni. Síðan er svo mikið af skemmtilegu og flottu fólki sem stundar þessa íþrótt, sem maður kynnist. Þannig hef ég eignast mjög góða vini í gegnum golfíþróttina, sem ég ferðast með bæði innanlands og utan og það gefur mér mikið.”

Enn virk í starfi Sjálfstæðisflokksins

Sólveig er í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins og er varaformaður í stjórn Varðar sem er stjórn fulltrúaráðsins í Reykjavík. Enn fremur tekur hún þátt í starfi fyrir Landssamband sjálfstæðiskvenna. “Síðan er ég í stjórn Virk sem er starfsendurhæfingarsjóður sem stuðlar að því að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir áföllum að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Þar er mjög mikilvægt og lærdómsríkt starf unnið. Þar sér maður glöggt hvað bjátar á víða og hversu miklu máli skiptir að við sem samfélag höldum utan um og styðjum fólk. Svo er ég í Rotaryklúbbi sem kemur saman vikulega þar sem fróðlegir fyrirlestrar eru haldnir um mikilvæg málefni og mikið góðgerðastarf unnið,” segir Sólveig en hún var forseti fyrsta Rotaryklúbbsins sem var blandaður báðum kynjum.

Af þessari upptalningu má sjá að Sólveig situr sannarlega ekki auðum höndum þrátt fyrir áföll og breytta stöðu í lífinu. Líka má nefna að hún er í fjölmennum kvenna- og umræðuklúbbi sem nefnist Exedra og á sæti í stjórn Félags fyrrverandi alþingismanna. Hennar sælustu stundir eru þó þegar barnabörnin gista öll hjá henni, þá er mikið fjör og hún nýtur þess ríkulega að vera amma. Börnin hennar þrjú hafa verið henni stoð og stytta og þau hafa farið saman í gegnum sorgina við að missa Kristinn. Þau hjónin voru mikið tónlistaráhugafólk og Sólveig heldur áfram að sækja tónleika reglulega. Hún segist vera mikill rokkari í sér og til dæmis hafi hún og nokkrar vinkonur haldið upp á útskriftarafmæli úr Lagadeildinni með því að fara á Stones tónleika í Parken í Kaupmannahöfn síðastliðið haust.

Verjum tímanum vel

Sólveig gerði sér rækilega grein fyrir því eftir fráfall Kristins hversu dýrmætur tíminn er og hversu miklu máli skipti að njóta og verja honum vel. Hún var á sama tíma að fást við sorg vegna bróður síns sem greindist með Alzheimer sjúkdóminn fyrir aldur fram, en þau hafa alla tíð verið mjög náin og miklir vinir. Við þessar aðstæður segir Sólveig að hún hafi fundið sterkt hversu mikilvægt sé að halda í allar góðu minningarnar, lifa lífinu núna og vera þakklátur fyrir það sem maður á.

 

 

 

 

Ritstjórn apríl 11, 2018 09:42