Sterku beinin og góðu dagarnir

Dóra Stefánsdóttir

Dóra Stefánsdóttir blaðamaður skrifar

Gamalt og gott máltæki segir að það þurfi sterk bein til að þola góða daga. Hvað sem góðu dögunum líður, virðumst við hins vegar mörg skorta hin sterku bein. Eftir því sem aldurinn færist yfir fólk verða beinin veikari sé ekkert að gert og geta brotnað undan eigin þunga. Á Wikipediu stendur “Tíðni beinþynningar eykst jafnt og þétt með auknum aldri og er algengari hjá konum en körlum. Sjúkdómurinn er frekar sjaldgæfur undir 55 ára aldri. Niðurstaða íslenskrar rannsóknar sýndi að önnur hver fimmtug kona og þriðji hver fimmtugur karl megi búast við beinbroti síðar á ævinni. Á Íslandi má rekja árlega um 1200 – 1400 beinbrot til beinþynningar. Algengustu beinbrotin vegna beinþynningar eru samfallsbrot í hryggjarliðum, mjaðmabeini, lærlegg og framhandlegg” (feitletrun mín).

Þetta eru skelfilegar upplýsingar sérstaklega þegar haft er í huga að þessi brot geta verið mjög sársaukafull og stundum jafnar fólk sig aldrei að fullu. Verst er þó að vita að meginhluta þessara brota hefði verið hægt að koma í veg fyrir með nokkrum einföldum aðgerðum.

Ég bjó í Grikklandi í fjögur ár og fagnaði þar m.a. fimmtugsafmæli mínu. Ég fór eitt sinn til kvensjúkdómalæknis og rakti fyrir henni líf mitt hvað varðar ættarsjúkdóma (meðal annars beinþynningu) kvensjúkdóma (legslímuflakk) og skurðaðgerðir (brottnám legs og eggjastokka þegar ég var 28 ára). “Jahá” sagði hún “og hvenær fórstu síðast í beinþéttimælingu?” Undrandi sagði ég henni að það hefði ég aldrei gert og vissi ekki einu sinni að slíkt væri til. Undrun hennar var ekki minni en mín og hún sagði mér að í Grikklandi væru konur (karlar bárust aldrei í tal á milli okkar) reglulega sendar í beinþéttimælingu eftir tíðahvörf. Við mína fyrstu beinþéttimælingu kom í ljós að beinin bæði neðst í hryggnum og efst í lærleggjum voru byrjuð að þynnast og ég því umsvifalaust sett á beinþéttilyf. Síðan þá, hef ég reglulega látið mæla styrk beinanna, tek lyf öðru hverju þegar styrkurinn fer aðeins niður og hvíli mig svo á lyfjunum þegar hann kemst upp í eðlilegt horf aftur. Kvensjúkdóma­læknirinn minn hér hefur nefnilega bent mér á að beinin geti orðið of stökk taki ég lyfin of lengi.

Hvað er skrýtið við þessa sögu?

Í fyrsta lagi virðist alls ekki fylgst með beinþynningu hér á landi með reglubundnum hætti. Það er algerlega lagt í hendurnar á fólki hvort það fer í beinþéttimælingu og þá hvenær. Jafnvel eftir beinbrot er ekki minnst á það við fólk að gott væri að láta mæla styrk beinanna.

Í öðru lagi virðast það fyrst og fremst vera kvensjúkdómalæknar sem einhvern áhuga hafa á beinþynningu. Engan karl þekki ég sem hefur farið í beinþéttimælingu, jafnvel þótt karlar eigi þennan sjúkdóm vissulega á hættu, þó í mun minna mæli en við konur.

Í þriðja lagi eru margir áhættuþættir vissulega ljósir en lítið sem ekkert er gert í að fræða fólk um þá. Doktor.is bendir á eftirtalda áhættuþætti:

  • Kyn og aldur, algengara hjá konum og öldruðu fólki.
  • Smábeinótt líkamsbygging
  • Fjölskyldusaga um mjaðmarbrot
  • Lækkað estrógen
  • Reykingar
  • Óhófleg áfengisneysla
  • Ákveðnir sjúkdómar og langtímanotkun á bólgueyðandi lyfjum
  • Hreyfingarleysi
  • Lítil kalkneysla

Doktorinn er með einfalt lítið áhættupróf á vefnum, sem gott er að byrja á að taka og leita síðan lengra ef þörf er á.

Margskonar beinþéttilyf eru til og ræða þarf við lækni hvert þeirra eigi best við, ef þörf er á að taka þau. Því miður er ekki nóg að taka inn kalk eða drekka mikla mjólk, það þarf sterkari efni til.  Mikilvægast er hins vegar að muna að beinþynning, sem doktor.is kallar “hinn þögla faraldur” gerir engin boð á undan sér og er oftast búin að krauma lengi undir yfirborðinu áður en beinin byrja að brotna. Ég þekki til óþægilega margra aldraðra kvenna sem hafa brotnað á undanförnum árum vegna beinþynningar, sumar þeirra margsinnis. Jafnvel þá, er varla rætt um að þær taki beinþéttilyf. Samanfallsbrot á hrygg getur verið eitthvað það sársaukafyllsta sem fyrir fólk getur komið og brot á lærlegg getur lagt fólk í rúmið til langframa. Enginn kærir sig um slíkt. Stólum á að eiga marga góða daga í vændum og styrkjum beinin.

 

 

Ritstjórn desember 7, 2017 06:27