Stórslys að lækka frítekjumark eldra fólks í 25 þúsund krónur

 

Þórunn Sveinbjörnsdóttir

„Mér finnst að það hafi orðið stórslys þegar frítekjumark atvinnutekna var lækkað í 25 þúsund krónur og skerðingarhlutfall gagnvart lífeyristekjum hækkað í 45%. Það er alltof hátt“, segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir nýr formaður Landssambands eldri borgara. Mikil umræða hefur orðið um frítekjumarkið í kjölfar viðtals við Margréti Helgu Jóhannsdóttur leikkonu sem birtist í Fréttablaðinu um helgina, en hún ætlar ekki að óbreyttu að halda áfram að leika í þáttaröðinni Föngum, uppá þau býti að halda nær engu eftir af tekjunum sem hún fær fyrir það.

Hætta að vinna eða vinna svart

Þórunn segir að margir hafi hætt störfum eða gerst verktakar eftir að frítekjumarkið var lækkað. Menn hafi jafnvel farið að vinna svart. „Þetta gengur alveg þvert gegn umræðunni um að það vanti fólk í mörg störf í samfélaginu“, segir hún.  „Að mínu mati þarf ekkert frítekjumark því ákveðinn hluti fólks fær það háan lífeyri að það getur unnið eins og það vill og borgað af því eðlilegan skatt. Það gengur ekki að mismuna hópum með þessum hætti“.  Þórunn segir að ef allir leggist á eitt sé von um að ná árangri í þessu máli og menn séu einmitt að átta sig á því um þessr mundir að það má einungis vinna fyrir 300 þúsund króna tekjum á ári, í stað rúmlega einnar milljónar króna eins og var á síðasta ári. Hún spyr hvor það sé eitthvert vit í þessu og segir að það verði barist fyrir því að eitthvað verði gert í málinu.

 

 

Ritstjórn september 4, 2017 14:47