Sturlaðar uppákomur í kjölfar handalögmála í heimahúsum

Kalak eftir Kim Leine er óvenjuleg saga. Kim er íslenskum lesendum ekki ókunnur, en önnur bók eftir hann kom út hér og vakti mikla athygli, Spámennirnir í Botnleysufirði. Jón Hallur Stefánsson þýddi báðar bækurnar. Kalak er skáldævisaga og í bókinni kynnumst við  ungum manni sem er allinn upp í samfélagi Votta Jehóva í norskri sveitabyggð, samfélagi þar sem hinn drottnandi og refsandi Guð er allt um lykjandi. Sextán ára hefur hann fengið nóg og strýkur til samkynhneigðs föður síns sem býr í Kaupmannahöfn.

Þetta er staðurinn þar sem ég á heima. Ég er sextán ára, bráðum sautján. Ég hef verið heppinn. Ég hélt  að ég myndi deyja, og kannski dey ég, því Guð getur væntanlega fundið mig hér líka. En það virðist ekki næstum því jafn líklegt í fjalllausu landi þar sem fullorðnir karlmenn kyssa hvor annan góða nótt. Þar að auki passar pabbi minn uppá mig. Ég kalla hann pápa. Hann elskar mig.

Faðirinn segist elska hann svo mikið að hann fer að misnota hann kynferðislega. Sem útskrifaður hjúkrunarfræðingur flýr söguhetjan Danmörku og skömmina sem hann hefur þegið í förðurarf. Hann sest að á Grænlandi ásamt konu og bönrum og lærir mál heimamanna. Stór hluti bókarinnar er lýsing á lífinu þar. Fjöldi barferða einkennir bókina og endalaus ástarævintýri Kims, en þar er líka að finna hundsleðaferðir, lyfjamisnotkun og ýmislegt fleira. Kim er með fjölda kvenna, það virðist ekki tiltökumál að útvega sér bólfélaga til einnar nætur eða lengur, á börunum á Grænlandi og þar ganga hlutirnir hratt fyrir sig. Hann hittir stelpu á gangi sem segist heita Monika.

Ég sé Moniku mjög skýrt þar sem hún stendur á stígnum andspænis mér. Hún er með demantsblá augu, svart axlasítt hár og það vantar í hana augntönn. Hún er nítján ára gömul.

Má ég ganga samferða þér smástund, segir Monika.

Við göngum niður malargötuna meðfram víkinni, niður að fiskverkunarstöðinni og setjumst á hafnarbakkann og dinglum fótleggjunum. Þetta er í byrjun júlí. Sólin er horfin á bak við fjöllin í norðaustri og þorpið liggur í skugga en fjörðurinn endurvarpar ljósinu frá himninum og ljær loftinu þennan flöskugræna bjarma. Monika hefur stungið hönd sinni í mína. Hún brosir skökku brosi, svo skarðið milli tannanna kemur í ljós, og kyssir mig.

Eigum við að gifta okkur í nótt? segir hún.

Kim kynnist Moniku í afskekktu þorpi þar sem hann er að vinna sem hjúkrunarfræðingur og starfið í þorpinu krefst meira af honum en nokkurt annað starf sem hann hefur unnið . Kringum tíu prósent af íbúunum drekka stöðugt, önnur tuttugu prósent drekka með hléum, en þeim mun heifarlegar þegar þau byrja á annað borð og afgangurinn, það er að segja miklu meira en helminguninn ef ákaft bindindisfólk. En það eru fyrstu tíu prósentin sem halda Kim við efnið og á hátíðisdögum þegar orlofsgreiðslur og barnabætur eru borgaðar út, slæst hópur tvö í lið með þeim.

Nokkurn veginn á hverjum degi, eða nóttu, vinn ég slysavarðsstofuvinnu, sauma skurði, gifsa handleggi og fótleggi, hreinsa sár, skipti um sárabindi. Maður einn kemur með skurð á endilöngum fingri eftir rafmagnshníf. Kona nokkur hendir ískjarnabor á eftir eiginmanni sínum og hæfir hann í upphandlegginn. Annar maður skýtur kúlu gegnum öxlina á sér. Að því búnu fær hann sér sæti á útidyratröppum, kveikir sér í sígarettu og nær að reykja hana hálfa áður en hann missir meðvitund. Sá þriðji veltir snjósleða í flæðarmálinu og lærbrotnar, en tekst með herkjum að bjarga sér frá drukknun. Á lækningastofunni verða sturlaðar uppákomur í kjölfar handalögmála í heimahúsum. Afbrýðissamir eiginmenn standa vörð fyrir utan gluggana meðan ég geri að skrámum eiginkvenna þeirra. Fógeti sýslunnar kemur daglega við hjá mér.

 

 

 

Ritstjórn júlí 31, 2018 09:48