Svaf í tjaldi í 27 stiga frosti á Mýrdalsjökli

Páll Ásgeir í einum af fjallaferðum sínum.

Pál Ásgeir Ásgeirsson þekkja margir en hann starfaði sem blaðamaður á árunum 1982 – 2003 en flutti sig þá yfir á RÚV í tvö ár. Að þeim tíma liðnum tók hann formlega ákvörðun um að þaðan í frá myndi allt sem hann gerði tengjast útiveru og ferðalögum með einhverjum hætti. Þá hafði Páll skrifað nokkrar leiðsögubækur, sú fyrsta kom út 1994, og hann bjó fyrir vikið yfir nokkuð yfirgripsmikilli þekkingu á landinu. Á þessum tíma segir hann að hafi runnið upp fyrir honum ljós að blaðamennskan væri ekki hentugt starf til að eldast í og sér ekki eftir að hafa snúið sér alfarið að ferðamennskunni. Páll hélt áfram að skrifa svolítið en eingöngu greinar sem sneru að ferðalögum og þeim endalausu ævintýrum sem það fag býður upp á. Hann hefur deilt þekkingu sinni í skólum sem bjóða upp á nám í leiðsögumennsku og kennt bæði í Endurmenntun HÍ og Ferðamálaskóla Íslands í Kópavogi.

Hætti að ferðast með Íslendinga

Eftir að Páll hætti í blaðamennsku fór hann að vinna fyrir Ferðafélag Íslands og settist þar í stjórn. Hann var þar í fullu starfi, mest við fararstjórn, þar til 2015 en ákvað þá að hætta að ferðast með Íslendinga og náði sér í réttindi til að ferðast á bíl með erlenda ferðamenn sem ökuleiðsögumaður. Það segir Páll að sé einstaklega skemmtileg vinna. “Þegar ferðast er með Íslendinga er leiðsögumaður alltaf að leitast við að bæta ofan á það sem þeir vita fyrir og það getur verið snúið,” segir Páll og brosir og bætir við að Íslendingar séu upp til hópa mjög fróðir um landið sitt.

Brenniseinsalda. Dæmi um ævintýraheim sem Páll leiðir ferðamenn um.

Einfalt líf er gott líf

Páll er Vestfirðingur en hann ólst upp við Ísafjarðardjúp. Það var ekki rafmagn á æskuheimili hans svo lífið var sannarlega öðruvísi og nær náttúrunni en almennt gerist í dag. “Ég lærði það í barnæsku að rafmagn væri vissulega þægilegt en ekki nauðsynlegt,” segir Páll en hann flutti 12 ára með fjölskyldu  sinni til Reykjavíkur. Hann segist hafa lifað eftir því mottói sem tíðkast til sveita að einfalt líf sé gott og skemmtilegt líf.

“Á seinni helmingi ævinnar fór ég að hafa gaman af því að vera í góðu formi og lifa heilbrigðu og einföldu lífi,” segir Páll og bætir við að hann hafi, að hætti blaðamanna, bæði reykt og drukkið ótæpilega áður fyrr. Í hans tilfelli hafi það fylgt blaðamennskunni og að betri og heilbrigðari lífshættir hafi haldist í heldur við að skipta um starfsvettvang. Síðan hefur hann sagt í gamni að honum líði ekki reglulega vel nema hann sé að hætta einhverju.

Er ein ferð skemmtilegri en önnur?

Ástæða þess að Páll valdi sér starfsvettvang sem tengist ferðalögum segir hann að sé ástríða hans fyrir náttúrunni. Síðustu tíu árin er hann búinn að fara um 200 ferðir á ári með ferðamenn og þar fyrir utan ferðist hann og eiginkona hans, Rósa Sigrún Jónsdóttir, mikið á eigin vegum. “Að ætla sér að velja ferð úr þeim aragrúa ferða er ógerningur,” segir Páll. “Í hverri einustu ferð verður til saga til að skrifa um. Það er einfaldlega þannig að ef ég ætti mér einhverja uppáhaldsstaði myndi mér leiðast að ferðast til allra hinna staðanna sem hver og einn er ævintýraheimur út af fyrir sig. Íslensk náttúra hefur alltaf sömu áhrif á mig hvar sem ég er,” bætir hann við. “Flest sumur kem ég mjög oft á sömu staði og ég hef áttað mig á að það er ævintýrið í útiverunni sem er galdurinn. Það er þessi návist við náttúruna sem lætur mér líða best, þar finn ég mig heima.”

Sumarferðir – vetrarferðir

Páll hefur nú um árabil starfað hjá Arctic Adventures og farið með ferðamenn í auðveldar og erfiðar ferðir. En hann velur eigin ferðir sjálfur og nefnir sem dæmi eina skemmtilega ferð sem hann og Rósa Sigrún fóru upp á Mýrdalsjökul með öðrum hjónum í fyrravor. Þá fóru þau upp á jökultoppinn á skíðum með farangurinn í eftirdragi og tjölduðu í rúmlega 1500 metra hæð um kvöldið. Þau vöknuðu á páskadagsmorgni í logni og heiðskíru veðri.  “Fátt kemst nær því að vera ævintýri líkast,” segir Páll og tekur fram að líklega hafi hitastigið farið niður í mínus 27 stig um nóttina. Eina skiptið sem hann rumskaði þá nótt var þegar hann fékk hrímhlunk í andlitið en tjöldin hríma að innan í svo miklum kulda. Þá var orði mjög kalt en ferðalangarnir voru vel búin í jöklapokum og varð ekki meint af. Síðan vörðu þau páskadegi í að renna sér niður af jöklinum og gæddu sér á dýrindis mat undir Eyjafjöllum áður en þau héldu heim á leið. “Við aðstæður sem þessar verður allur matur að herramannsmat, meira að segja vegaborgari,” segir Páll og hlær.

Páll Ásgeir nýtur leiðsögumannasviðsins.

Líkindi við leikarastarfið

Páll líkir starfi leiðsögumanns við leikarastarfið.  “Í leikhúsinu koma heilar deildir að leiksýningum en það er ekki fyrr en leikarinn mætir á sviðið sem eitthvað gerist,” segir Páll. “Leiðsögumaðurinn stendur í nákvæmlega sömu sporum og leikarinn. Búið er að undirbúa sviðið og svo þarf hann að ná athygli hlustenda með áhugaverðum frásögnum og þá dugar ekkert svindl því þá fellur sýningin. Og það er ekki um það að ræða að treysta á skrifað mál þegar maður er með ferðamenn. Allir kannast við hversu texti leiðsögumanna verður þurr og leiðinlegur ef þeir ætla sér að lesa hann af blaði. Þá fer fljót að bera á óþolinmæði hjá ferðamönnum,” segir Páll Ásgeir sem unir sér best úti undir berum himni við alls konar aðstæður og útlendingar fá að njóta ferðareynslu hans og þekkingar á landinu okkar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn júní 22, 2018 05:47