Tæplega helmingur frambjóðenda eldri en fimmtugir

Sigrún Sturludóttir er elst þeirra sem taka sæti á lista fyrir komandi Alþingiskosningar. Sigrún er á lista hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík suður og situr í 21 sæti listans. Sigrún er fædd 1929 og er því  88 ára gömul. Nokkra, bæði karlar og konur, sem fæddir eru árið 1930 er að finna á listum flokkanna, öll eru þau í neðstu sætum listanna. 1244 einstaklingar bjóða sig fram af þeim eru 515 eldri en fimmtugir.  Halldór Gunnarsson er elstur þeirra sem skipar forystusæti á lista en hann er í fyrsta sæti fyrir Flokk fólksins í Norðausturkjördæmi. Halldór er fæddur 1941 og er því 76 ára gamall. Af þeim sem líklegt má telja að nái kjöri er Ari Trausti Guðmundsson elstur en hann er 69 ára, fæddur 1948. Ari Trausti skipar fyrsta sætið hjá Vinstri grænum í Suðurkjördæmi.Yngsti frambjóðandinn í forystusæti er Erna Lína Örnudóttir Baldvinsdóttir hún er fædd 1998 og því 19 ára gömul.  Erna Lína er í framboði fyrir Alþýðufylkinguna í Kraganum. Þegar listar flokkanna eru skoðaðir kemur í ljós að Flokkur fólksins býður fram elsta listann í Norðausturkjördæmi, á listanum eru 20 manns, þrír yngri en fimmtugir. Píratar í Norðvesturkjördæm bjóða fram ungt fólk á lista sínum af 16 sem eru í framboði í kjördæminu fyrir flokkinn eru tveir eldri en fimmtíu ára.  Svipuðu máli gegnir um Framsóknarflokkinn í Norðvestur, þrír á lista flokksins eru fimmtíu plús. Annars má segja að aldursskiptingin á listum flokkanna sé nokkuð jöfn og það sama má segja um kynjaskiptinguna. Mun fleiri karlar en konur sitja þó í toppsætunum listanna.

Ritstjórn október 23, 2017 14:11