Það birtast karlar sem minna á afa þinn

 

Lisa Copeland

Lisa Copeland

„Fyrir skömmu sagði maður mér nokkuð sem við könnumst sjálfsagt mörg við. Hann hafði sett mynd af sér inn á stefnumótasíðu og dóttir hans spurði: „Pabbi, af hverju ertu að nota tíu ára gamla mynd af þér?“ Maðurinn trúði mér fyrir því að í raun hefði hann séð sjálfan sig eins og hann leit út á myndinni og hann hafði ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið hann hafði elst frá því hún var tekin,“ segir Lisa Copeland, rithöfundur og stefnumótasérfræðingur í grein sem birtist á vef Huffington Post fyrir nokkrum dögum.

Lisa spyr: Finnst þér ekki stundum eins og þú hafir lokið grunnskóla í gær? Það er ekki ósennilegt að þú gangir um í gallabuxum og hár þitt sé síðara en hár móður þinnar. Hér áður fyrr var algengt að konur klipptu sig stutt eftir giftingu. Á meðan minningarnar um unglingsárin eru skýrar er sennilegt sjáir þú sjálfa þig ekki sem manneskju á sextugs eða sjötugsaldri. Þar sem þú ert nú einhleyp ertu stöðugt að leita að einhverjum af gagnstæðu kyni alveg eins og þegar þú varst í menntaskóla. Í stað þess að leita sæta íþróttastrákinn uppi svipast þú nú um eftir eldri útgáfu hans. Manni sem er skemmtilegur, laglegur og vel settur í lífinu. Með þannig hugmyndir í kollinum ferðu svo á netið. Í stað þess að finna alla sætu strákana birtast karlar sem minna á afa þinn. Menn sem eru fimmtugir og eldri, með þunnt hár, ýstru og fortíð. Ekkert skrítið að það sé fátt um fína drætti, þeir eru allir of gamlir. Mennirnir eru komnir með skalla á meðan þú ert farin að sjá hár vaxa á ótrúlegustu stöðum. Í raun gæti háreyðing verið hlutastarf fyrir okkur konurnar sem erum komnar  yfir miðjan aldur. Kannski hanga áratugagömul aukakíló vegna þungunar enn utan á þér og breytingar á húð eru hverjum manni sjáanlegar. Þá valda hormónarnir stundum geðvonsku svo svakalegri að enginn helst í návist þinni tímunum saman. Fyrir tveimur árum sá ég mynd af æskuástinni minni á Fésbók. Þessi sæti strákur sem spilaði fótbolta hafði skartað síðu dökku hári og gekk alltaf í gallabuxum. Mér brá. Ég hafði ímyndað mér eldri útgáfu af þessum strák en núna var hann orðinn hvíthærður, kominn í jakkaföt og þó hann væri enn myndarlegur var hann farinn að líkjast föður sínum verulega. Á því augnabliki hugsaði ég að það væri útilokað að ég sjálf virtist svona gömul. En sennilega er það þannig. Ég sé það bara ekki sjálf. Engu okkar líkar við þá staðreynd að við erum að eldast en einstaklingarnir sem við gætum hugsað okkur að fara á stefnumót með eru líka að eldast. Sumir menn eldast vel, aðrir ekki og þó þeir eldist ekki vel eru þeir samt á stefnumótasíðunum þar sem þú rekst á þá. En ef þú myndir hitta einn þessara manna í eigin persónu en ekki á netinu gæti alveg eins farið svo að þér litist vel á hann vegna persónutöfra sem vega útlitsanmarka alveg upp.Útlitið skiptir vissulega máli en persónan á bakvið það skiptir líka máli. Væri ekki dásamlegt að vera með manni sem stæði með þér í gegnum þykkt og þunnt? Sem væri skemmtilegur hvar og hvenær sem er og sæi þig ávallt sem fallega konu, jafnvel þó þú eltist? Hann er þarna einhvers staðar og gæti vel verið einn þessara manna sem þú sérð í tölvunni. Ef hann lítur út fyrir að vera vingjarnlegur mætti alveg gefa honum tækifæri. Hann gæti vel reynst vera þessi ástríki maður sem þú ert að litast um eftir, segir Lisa að lokum í pistli sínum.

 

 

Ritstjórn febrúar 26, 2016 15:38