Það er svo gaman að kunna dönsku

Inga Dóra Björnsdóttir

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur skrifar

Nýlega lauk ég við að lesa bókina Profeterne i Evighedsfjorden eftir dansk-norska höfundinn Kim Leine. Bókin fjallar um prest á 18.öld, sem fer nývígður til Grænlands. Þar þjónar hann í senn innfæddum og dönskum embættis-og iðnaðarmönnum, sem þar eru búsettir.  Þetta er í senn átakanleg og viðburðarrík saga, sem gefur góða innsýn  í 18. aldar danskt nýlendu samfélag. Þegar ég las hana hvarflaði hugur minn oft að íslensku útkjálkalífi á 18.öld.  Það íslenska var án efa ekki oft ólíkt því grænlenska. Í bókinni er að finna skelfilegustu lýsingar á nauðgun og fóstureyðingu, sem ég hef lesið.

Það sem gerir lestur þessar bókar merkilega fyrir mig er að ég las hana á dönsku, en ég hef ekki lesið bók á dönsku síðan ég var í dönsku í menntaskóla, en dönskunámi mínu þar lauk vorið 1969 eða fyrir tæpum 50 árum!

Dönskunám var skylda í íslenskum skólum þegar ég var að alast upp, og var það fyrsta erlenda tungumálið sem allir lærðu. Við byrjuðum á því í fyrsta bekk í gagnfræðiskóla og dönsku námi mínu lauk eftir fyrsta bekk í menntaskóla.  Ég lærði sem sagt dönsku í fjögur ár, og nú tæpum fimmtíu árum síðar bý ég enn að þeirri menntun, en ég gat lesið bókina Profetener i Evighedsfjorden án aðstoðar orðabókar.

-Það var svo sannarlega gaman. –  Danskan var á þessum tímum alheimstungumál íslendinga, Danmörk var upphafið og endirinn á útlöndum í hugum margra. Danmörk var landið sem íslendingar leituðu til sér til forfrömunar á mörgum sviðum. Þangað fór fólk til háskólanáms, lýðháskólanáms, íslenskar konur, sem vel máttu sínu, fóru þangað á húsmæðraskóla og svona mætti lengi telja. Þangað fóru líka íslenskir rithöfundar á fyrri hluta 20.  aldar til að leita sér frama á ritvellinum með því að skrifa bækur sínar á dönsku. Gunnar Gunnarson varð frægastur þessara höfunda.

Nú skilst mér að dönsku kunnátta sé á undanhaldi á Íslandi, enskan er að taka yfir og er það miður.  Ísland er sögulega tengt Danmörku órjúfanlegu böndum og dönsk áhrif hafa sett varanlegt mark sitt á íslenska menningu.  Það glatast því margt ef íslendingar missa tengslin við Danmörku. Þeir fara ekki aðeins á mis við hina frjóu og merku dönsku menningu, heldur glata þeir tengslunum við sína eigin sögu og menningu. – Svo ég tali nú ekki um hversu skemmtileg danskan er, með sínum rúllandi errum og kokhljóðum, ég uppgötvaði einmitt þetta þegar ég las bókina góðu og áttaði mig á að ég byggi yfir miklum auð að geta hikstalaust lesið dönsku.

Inga Dóra Björnsdóttir apríl 30, 2018 07:09