Þakið rúm 400 þúsund á mánuði

Þeir íbúar dvalar- og hjúkrunarheimila sem hafa meira en  92.000 krónur í mánaðatekjur eftir skatta, þurfa að taka þátt í dvalarkostnaði sínum þar, með þeim tekjum sem umfram eru. Greiðsluþáttaka verður þó aldrei hærri en 409.000 krónur á mánuði. Þeir sem greiða hámarksgjald eru með tekjur yfir 500.000 krónur á mánuði eftir skatt. Gjaldið fer ekki eftir því hvar fólk býr, eða hvaða þjónusta stendur því til boða á heimilinu, eingöngu eftir tekjum. Það er viðkomandi dvalar- eða hjúkrunarheimili sem innheimtir gjaldið.

Lofa að hún fari ekki á hjúkrunarheimili

Lifðu núna hefur rætt bæði við starfsfólk og aðstandendur þeirra sem eru á hjúkrunarheimilum og það er ljóst að aðstæður þar eru mjög mismunandi. Á heimili úti á landi, bjó kona í tveggja manna herbergi með svo veikri konu, að hún gat sjaldan verið inni á  herberginu. Hún var með minnissjúkdóm, en fékk litla sem enga þjálfun. Hún borgði 300 þúsund krónur á mánuði fyrir að vera á heimilinu.Starfsmaður á hjúkrunarheimili í Reykjavík, sagði að vegna manneklu væri afskaplega lítill tími til að sinna íbúunum. Þeim væri ekki vel sinnt og sjálf var hún búin að taka loforð af börnunum sínum um að hún færi aldrei á hjúkrunarheimili.

Hafa varla tíma til að brosa og bjóða góðan daginn

Fulltrúi íslensku þjóðfylkingarinnar sem var í framboði til borgarstjórnar í síðustu kosningum og vann á hjúkrunarheimili sagði  í umræðunni fyrir kosningarnar „Biðlistar eru alltof langir, fólk er fársjúkt þegar það kemst á hjúkrunarheimili. Þetta er skelfilegt. Það verður að gera eitthvað í þessu“.  Hún benti líka á að það vantaði fleira starfsfólk á hjúkrunarheimilin. Fáliðað starfslið væri á hlaupum og hefði varla tíma til að brosa til fólks og bjóða góðan daginn.

Frekar há upphæð miðað við þjónustuna

Aðstandandi konu sem borgar hámarksgjald á hjúkrunarheimili, það er 409 þúsund á mánuði, sagðist skilja að það gæti ekki verið ókeypis að vera á hjúkrunarheimili. „En mér finnst þetta frekar há upphæð miðað við það sem er innifalið. Mamma býr ágætlega í sérherbergi með sérbaði, en önnur þjónusta er ekki neitt sérstök. Það er ekki nógu vel mannað hérna og ég hugsa að það sé alls staðar. Megnið af starfsfólkinu er sjúkraliðar eða ófaglært fólk, þannig að launakostnaðurinn getur ekki verið neitt svakalegur.  Mér finnst ekki boðlegt hvað fólk þarf að bíða lengi eftir að fá aðstoð, til dæmis við að fara á klósett. Ég hugsa til þess með hryllingi ef ég lendi einhvern tíma inná svona stofnun. Við myndum ekki bjóða börnum í leikskóla uppá þetta. Foreldrar myndu ekki sætta sig við það. Þeir láta miklu meira í sér heyra en aðstandendur þeirra sem dvelja á hjúkrunarheimili“.

Skoðaðu Upplýsingabanka Lifðu núna til að sjá búsetuúrræði og aðra þjónustu fyrir eldra fólk. Smella hér.

Ritstjórn október 3, 2018 09:36