Þarmaflóran og breytingaskeið kvenna

„Flestar konur fara á breytingaskeiðið í kringum fimmtugt, sumar nokkru fyrr og aðrar síðar. Sumar eru svo heppnar að finna ekkert fyrir breytingaskeiðinu á meðan aðrar finna fyrir ýmsum einkennum. Rannsóknir benda til að hitakóf, svitaköst, svefnörðugleikar, beinþynning, aukinn hárvöxtur og andleg vanlíðan eigi meðal annars upptök í meltingarveginum,“ segir Birna G. Ásbjörnsdóttir, MSc í næringarlæknisfræði.

Birna verður með námskeið um breytingaskeið kvenna hjá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands þann 24. september næstkomandi. Birna er með meistaragráðu í næringarlæknisfræði frá háskólanum í Surrey. Hún hefur einnig lokið námi í gagnreyndum heilbrigðisvísindum frá háskólanum í Oxford. Nú er nýr kafli að hefjast hjá Birnu en hún hóf nýlega þriggja ára doktorsnám í heilbrigðisvísindum. Í náminu ætlar hún að rannsaka tengsl mataræðis, þarmaflóru, gegndræpi þarmanna og geðheilsu barna og unglinga á Íslandi

Birna segir að það sé hægt að breyta örveruflóru þarmanna með breyttu mataræði og til þess séu nokkrar leiðir. Hún segir að þarmaflóran samanstandi af trilljónum örvera sem lifi í meltingarvegi okkar og innihaldi að minnsta kosti 1000 ólíkar tegundir af þekktum bakteríum. Þessar bakteríur búi yfir ríflega 3 miljónum gena sem eru 150 sinnum fleiri en okkar eigin gen. Þarmaflóran vegi um 2 kg. í meðal einstaklingi og einn þriðji þessara baktería er svipaður í okkur öllum meðan tveir þriðju eru sérsniðnir að hverjum og einum. Notkun ákveðinna lyfja, og þá helst sýklalyfja geta skaðað heilbrigða þarmaflóru Margar rannsóknir benda til þess að góðir gerlar til inntöku og ákveðin efni í fæðunni geti styrkt og hlúð að þarmaflórunni. Þessir góðu gerlar finnast í gerjuðum mat eins og súrkáli, jógúrti, kefir og kombucha.

Á námskeiði Birnu verður fjallað um:

  • Breytingaskeið kvenna og ýmis einkenni.
    • Flóru meltingarvegar og hlutverk hennar í tengslum við hormónakerfi.
    • Flóru meltingarvegar og hlutverk hennar í tengslum við taugakerfi.
    • Hvað getur raskað þessari mikilvægu þarmaflóru og hvað er til ráða.
    • Hvernig þarmaflóran hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan.
    • Fæðutegundir sem geta stuðlað að/dregið úr einkennum á breytingaskeiði.
    • Bætiefni sem geta haft jákvæð áhrif.

Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem vilja fræðast um breytingaskeið kvenna og leiðir til að draga úr einkennum og heilsufarskvillum sem geta fylgt í kjölfarið.

Ritstjórn september 18, 2018 07:10