Þegar Nixon Bandaríkjaforseti braut bollann

Wilhelm Wessman

Wilhelm Wessman skrifar 

Í tilefni að toppfundi Nixons Bandaríkjaforseta og Pompidous Frakklandsforseta sem haldinn var á Kjarnvalsstöðum í lok maí 1973 bauð Kristján Eldjárn forseti til kvöldverðarhófs að Bessastöðum 31 maí 1973. Forseti óskaði eftir að Hótel Saga sæi um veisluna. Ég var veitingastjóri á Hótel Sögu á þessum árum og fól Konráð hótelstjóri mér að sjá um þetta verkefni. Eftirfarandi eru minningarbrot fá þessum atburði.

Öryggisgæslan var ótrúlega umfangsmikil, sérstaklega varðandi Nixon. Löngu áður en forsetarnir komu til landsins, þurfti að senda til Bandaríkjanna nöfn allra sem áttu að starfa við veisluna, ef einhver forfallaðist mátti ekki koma annar í staðinn. Alllöngu áður en forsetarnir komu að Bessastöðum, fylltist forsetabústaðurinn af öryggisvörðum og leynilögreglumönnum, og þeir rannsökuðu hvern krók og kima; þeir litu meira að segja undir borðbúnaðinn þegar búið var að leggja á borð.

Ég stóð fyrir aftan forsetana þrjá eins og mér bar sem veitingastjóra á meðan á veislunni stóð. Mér var undarlega innanbrjósts allan tímann, því að á bak við tjald fyrir aftan mig sat á stól öryggisvörður með byssu í hendi og beindi henni stöðugt að hryggnum á mér.

Allt gekk að óskum af okkar hálfu, en þegar Nixon lyfti glasi að lokinni ræðu sinni bað hann menn að skála fyrir –Írlandi.

Forsetaveislan að byrja. Fyrir miðju eru Wilhelm Wessman veitingastjóri og Konráð Guðmundsson hótelstjóri

Kaffi var borið fram að borðhaldi loknu, og menn drukku það standandi um leið og þeir spjölluðu saman. Um þetta leyti var landhelgisdeilan við Breta óleyst, og íslenskir stjórnmálamenn reyndu eðlilega að vinna málstað okkar fylgi hvar sem þeir gátu. Hinum háu herrum í París og Washington þótti víst nóg komið af tali um vandamál smáþjóðarinnar sem ekki var til umræðu á fundi þessara tveggja stórþjóða.

Lúðvík Jósepsson var sjávarútvegsráðherra á þessum tíma, og eitt sinn þegar ég stend við hlið Nixons kemur hann til forsetans og fer að ræða við hann um landhelgismálið.

Eftir stutt spjall þeirra tek ég eftir að Nixon er orðinn órólegur og önugur, og allt í einu sé ég að hann lætur kaffibollann sinn viljandi falla á gólfið þar sem hann mölbrotnaði.

Ég er samfærður um að þetta hefur hann gert til að slíta samtalinu og þurfa ekki að ræða frekar landhelgismálið við ráðherrann.

Enginn gæðavín voru til hjá ÁTVR á þessum árum, og var því rauðvínið með aðalréttinum sem var lambahryggur, pantað frá vínverslun á Strikinu í Kaupmannahöfn. Fyrir valinu varð Chateau Talbot 1962. Kristján Eldjárn forseti gaf mér eina flösku af víninu í þakklætisskyni eftir veisluna, og á ég hana enn óopnaða. Nixon forseti hafði á orði við Ólaf Jóhannesson forsætisráðherra að hann drykki ekki sterka drykk, eingöngu létt vín og hans uppáhalds vín væru Bordeaux vín.

 

 

Wilhelm Wessman febrúar 2, 2018 15:58