Þegar samkynhneigt barn giftir sig

Að mæta í brúðkaup hjá samkynhneigðu pari er ekki pólitísk aðgerð heldur snýst viðvera þín um kærleika, fjölskyldu og samfélag. Flestir sem gifta sig hér á landi nota sumarið til þess. Í grein á vefsíðu AARP,  segir að með breyttri löggjöf megi búast við að boðum í brúðkaup samkynhneigðra fjölgi. Þó mikill meirihluti Bandaríkjamanna sé hliðhollur hjónaböndum samkynhneigðra sé um þriðjungur þeirra mótfallinn þeim, nokkuð sem getur vafist fyrir hlutaðeigandi þar í landi eins og foreldrum, gestum og parinu sjálfu.

Betra samband við samkynhneigðu börnin

Vísað er í greininni í  bók,When Your Gay Or Lesbian Child Marries: A Guide for Parents eftir  félagsfræðinginn Deborah M. Merill. Hún ræddi við foreldra á aldrinum 50-80 ára sem áttu bæði gagnkynhneigð og samkynheigð uppkomin börn í hjónaböndum. Það sem kom á óvart var að foreldrar virðast hafa betra samband við samkynhneigðu pörin heldur en þau gagnkynhneigðu. Samkynhneigðir synir í hjónabandi eyða meiri tíma með foreldrum sínum, saman eða sitt í hvoru lagi heldur en gagnkynhneigðir synir í hjónaböndum segir Merrill. Mæður voru viljugri til að heimsækja syni sína þar sem þær höfðu enga tilfinningu í þá veru að þær væru að troða tengdadætrum um tær. Þá kom í ljós að samkynhneigðar tengdadætur voru duglegar að koma á og viðhalda góðum samskiptum við tengdafjölskylduna.

Brúðkaupið

Brúðkaup samkynhneigðra geta verið sumu fólki erfið, sérstaklega ef foreldrar hafa blendnar tilfinningar gagnvart tilvonandi maka barnsins. Gifting er miklu sýnilegri heldur en það að koma út úr skápnum. Þá eru sumir foreldrar skömmustulegir vegna þess að þeir hafa ekki látið aðra í fjölskyldunni vita áður að barnið er samkynhneigt segir Merill. Svo er það spurningin um það hverjum á að bjóða í brúðkaupið? Allt frá vinnufélögum til áa sem eru kannski ekkert sérstaklega hliðhollir brúðkaupinu. Merill komst þó að því að ekkert er að óttast að því leyti og yfirleitt taka ættingjar boðinu mjög vel. Þó urðu oft sárindi þegar foreldrar voru neikvæðir og viðurkenndu ekki orðinn hlut. Sum börnin upplifðu að foreldrarnir voru ekki jafn ánægðir og á brúðkaupsdegi gagnkynhneigðra systkina sinna. Merill hvetur foreldra til að sætta sig við hlutina eða eins og ein móðirin sagði: „Þú verður að setja til hliðar allar tilfinningar og skoðanir sem þú hefur um samkynheigð og elska barnið þitt eftir sem áður.“ Margir vinir og ættingjar eru e.t.v. að mæta í brúðkaup samkynhneigðra í fyrsta skipti. Það gæti verið óþægilegt fyrir einhverja.

Hvernig á að bera sig að

Hvernig eiga þeir gestir að bera sig að? Steve Petorow blaðamaður hjá Washington Post og dálkahöfundur um málefni samkynhneigðra gefur eftirfarandi ráð: Haltu skoðunum þínum út af fyrir þig. „Ég hefði ekki viljað neinn í mitt brúðkaup sem hefði ekki þótt vænt um okkur og stutt okkur sem hjón. Mitt ráð til þeirra sem hafa af eitthvað á móti hjúskapnum hvort sem það er út af samkynhneigð eða öðru, er að skipta sér ekki af því sem honum eða henni kemur ekki við. Ef þú getur ekki stillt þig um það er best að þú afþakkir kurteislega boð í brúðkaupið og að þú afþakkir boðið án allra skýringa á því hvers vegna þú kemur ekki.

Ekki spyrja

Ekki spyrja hvor er brúðurin eða brúðguminn? Slík spurning er dónaleg og byggð á úreltum staðalímyndum segir Petrow: „Þegar tveir karlmenn ganga í hjónaband eru þeir báðir eiginmenn og á sama hátt eru tvær konur í hjónabandi báðar eiginkonur.“ Sýndu parinu stuðning. Finndu viðeigandi kort með gjöfinni og gefðu þér tíma til að semja og skrifa fallega persónulega kveðju með heillaóskum parinu til handa. Gerðu þér grein fyrir því hversu mikilvægur atburður giftingin er fyrir parið og láttu það vita af því. Það að mæta í brúðkaup hjá samkynhneigðu pari er ekki pólitísk aðgerð heldur snýst viðvera þín um kærleika, fjölskyldu og samfélag“  Petrow bætir við að tími sé kominn til að hætta að tala sérstaklega um brúðkaup samkynheigðra og tala einfaldlega um brúðkaup, nánari skilgreining á því sé með öllu óþörf.

Ritstjórn júní 27, 2016 13:41