Þeir hamingjusömu kaupa tíma

Flestir þekkja ánægjuna af því að eignast hlut sem þá hefur lengi langað í. Fólk ætti samt frekar að nota peningana í að kaupa sér meiri tíma en hluti ef það vill vera hamingjusamt, segir Malene Lembcke Petersen á vef danska ríkisútvarpsins. Hún vitnar þar í stóra rannsókn sem gerð var í nokkrum löndum en samkvæmt henni er fólk sem kaupir þrif og tilbúinn mat hamingjusamara en það sem gerir hlutina sjálft. Í greininni vísar hún til ummæla Elizabeth Dunn prófessors í sálfræði við Háskólann í Bresku Kólembíu í Kanada en Elizabeth  segir að samkvæmt röð rannsókna sem gerðar hafa verið sé fólk hamingjusamara og ánægðara með líf sitt kaupi það sér heimilishjálp.  Í takt við aukna velmegun finnist mörgu fólki að það hafi engan tíma til að sinna öllu því sem þarf að gera heima. Það upplifi tímaskort og það valdi stressi sem rýri lífsgæði þess. Fólk vill því kaupa sig frá hversdagsskyldum sínum og auka þannig lífsgæði sín.

Í sjö rannsóknum spurðu Elizabeth og samstarfsmenn hennar rúmlega 6000 manns í Bandaríkjunum, Kanada, Danmörku og Hollandi um hvort þeir keyptu sér aðstoð við heimilisstörfin. Þeir sem keyptu hjálp voru miklu hamingjusamari en þeir sem gerðu allt sjálfir. Í hliðarrannsókn sem gerð var í Kanada var hópur fólks beðin um að nota 40 dollara í tvær helgar í röð. Aðra helgina átti fólk að kaupa sér eitthvað sem það langaði í en hina helgina átti fólk að kaupa sér heimilisaðstoð. Fólk var svo spurt hvernig því hefði liðið eftir fjárútlátin. Yfirleitt var fólk mun jákvæðara og ánægðara með lífið og tilveruna helgina sem það eyddi í heimilishjálp heldur en helgina sem það keypti einhverja hluti sem það langaði í.

 

Ritstjórn ágúst 8, 2017 10:39