Þorfinnur Ómarsson fyrrum sjónvarpsmaður

Þorfinnur Ómarsson er einn af þeim sem allir vita hver er af því hann birtist reglulega á sjónvarpsskjám landsmanna fyrir nokkru og svo gegndi hann starfi forstöðumanns Kvikmyndasjóðs Íslands  um sjö ára skeið. Færri vita hvað Þorfinnur hefur aðhafst undanfarið en hann hefur búið og starfað erlendis um nokkurt skeið. “Fyrir nokkru” er hvorki meira né minna en 10 ár, eða frá því hann var í Íslandi í dag á Stöð 2 árið 2008.

Til Sri Lanka 2006

Þorfinnur fór á vegum íslensku friðargæslunnar til Sri Lanka 2006 þar sem þá geisaði blóðug borgarastyrjöld. Hann var talsmaður fyrir alþjóðlega friðargæslusveit sem lagði sitt af mörkum við að reyna að koma á friði og var á Sri Lanka í tvö ár. Þetta voru einmitt árin í aðdraganda hrunsins þegar ekkert komst að á Íslandi annað en útrásarvíkingar og svo síðar Panamaskjöl. Þorfinnur segir í gríni að hann hafi í raun misst af “Íslandi 2007” þótt hann hafi auðvitað fylgst með úr fjarlægð. Hann segir að honum hafi þótt það skrýtið þegar hann kom heim á þessum tíma að enginn hafi svo mikið sem spurt hvað hann væri að aðhafast þarna úti, þar sem ríktu blóðug átök. Hér heima hafi allir verið með hugann við efnahagsbóluna sem var við það að springa sem hafi auðvitað verið alvarlegt mál en í samanburði við hryllinginn á Sri Lanka hafi það kannski verið hljóm eitt.

“Ef þú varst ekki með í einhverri viðskiptaútrás varstu bara ekki með yfirleitt,” segir Þorfinnur og bætir við að eftir á að hyggja hafi hann hafi bara verið nokkuð sáttur við það að hafa ekki verið með í þeim dansi. Hann var síðan staddur á Íslandi haustið 2008 þegar allt hrundi en korter í hrun hafði hann ákveðið að fara í mastersnám í alþjóðaviðskiptum í HR sem var tveggja ára nám. Námið fól í sér að nemendur áttu að fara eitt misseri í skiptinám til útlanda en þar sem námið hér fór allt fram á ensku áttu nemendur að velja sér eitthvert annað málsvæði fyrir skiptinámið. Hann hafði frönskuna þegar á valdi sínu svo hann ákvað að bæta spænskunni við. Til að fá sem mest út úr þessu valdi Þorfinnur sér háskóla í Buenos Aires þangað sem hann hélt haustið 2009 og lauk náminu þar á tilskildum tíma. Þá lá leiðin til Panama.

Dvölin í Panama

Sambýliskona Þorfinns er Ástrós Gunnarsdóttir pilateskennari. Á sama tíma og Þorfinnur ákvað að fara til Buenos Aires tók Ástrós tilboði um að  kenna Pilates í Pilates-stúdíói í Panama. “Að þessum tíma loknum, eftir að hafa verið fyrst á Sri Lanka og síðan í Suður Ameríku, var komið að því að svara spurningunni: Hvað svo?” segir Þorfinnur. “Við höfðum verið á töluverðum þvælingi í nokkur ár svo nú fannst okkur vera komið að því að vera um kyrrt á sama stað og þar sem Ástrós langaði til að setja upp sína eigin Pilatesstöð þar sem hún gæti nýtt sér menntunina var fyrsta hugsunin að finna góðan stað í Reykjavík. En svo rann upp fyrir okkur að auðvitað var Reykjavík ekki endilega besti kosturinn í stöðunni. Okkur langaði mest að setjast að í rótgróinni evrópskri menningarborg þar sem við gætum bæði fundið nokkuð við okkar hæfi og fljótlega var ljóst að Brussel væri tilvalin. Þar voru fá fullbúin Pilates- stúdíó og því tækifæri til að koma þar inn. Brussel er líka fönskumælandi borg, sem hentaði mér ágætlega, og ég hafði góða von um að fá hér vinnu svo við skelltum okkur í að fjárfesta, kaupa tæki og koma stöðinni upp. Við völdum okkur Evrópuhverfið í borginni þar sem væri væntanlega fólk sem situr við tölvu allan daginn og hefur gott af því að hreyfa sig og er líka með ágætis laun. Allt skipti þetta máli. Síðan eru liðin sjö ár og við erum hér enn.”

Nú er Pilatesstöð Ástrósar farin að ganga vel og Þorfinnur að vinna fyrir EFTA þar sem hann er yfir upplýsingamálum stofnunarinnar frá því í júní 2016. Þau Þorfinnur og Ástrós létu síðan verða af því að gifta sig síðastliðið sumar. Athöfnin fór fram í litlu þorpi í suður Frakklandi þar sem faðir Þorfinns pússaði þau saman við mikinn fögnuð viðstaddra sem voru 60 talsins, flestir frá Íslandi.

Ritstjórn janúar 10, 2018 12:16