Þórunn tekur við af Hauki

Þórunn Sveinbjörnsdóttir tók við af Hauki Ingibergssyni sem formaður Landssambands eldri borgara á landsfundi sambandsins í vikunni.  Haukur gegndi formennskunni í tvö ár og var jafnframt framkvæmdastjóri Landssambandsins. Þórunn Sveinbjörnsdóttir var formaður í Félagi eldri borgara í Reykjavík þangað til á síðasta landsfundi, þegar fjögurra ára tímabili hennar í embættinu  lauk og Ellert B. Schram var kjörinn í hennar stað.

Á landsfundinum voru samþykktar harðorðar ályktanir til dæmis um kjaramál. Þess var krafist að frítekjumark á viðbótartekjur eldra fólks yrði afnumið. Sumir í þeirra hópi greiða allt að 73% jaðarskatt vinni þeir sér inn 100 þúsund króna viðbótartekjur. Þá var einnig samþykkt að skoða það til hlítar að höfða mál gegn ríkinu, vegna skerðinganna í almannatryggingakerfinu. Það kunni að vera brot á eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að skerða tekjur eftirlaunamanna eins og nú er gert, hafi þeir áunnið sér rétt í lífeyrissjóði.

Þá var einnig harðlega gagnrýnt að Framkvæmdasjóður aldraðra skuli notaður til annarra verkefna en uppbyggingar hjúkrunarheimila, á meðan 350 manns bíða eftir hjúkrunarplássum.  Og hvatt var til þess að áfram yrði unnið að því að færa málefni aldraðra til sveitarfélaganna, að því tilskyldu að fjármagn fylgdi. Ennfremur var skorað á eldri borgara að láta rödd sína heyrast í sveitarstjórnum landsins.

Fimmtíu og fimm félög eldri borgara um land allt, eiga aðild að Landssambandinu. Stærsta félagið, Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, telur yfir 10.000 félaga. Samkvæmt könnun á högum og líðan aldraðra, sem Félagsvísindastofnun HÍ gerði í lok síðasta árs, fyrir ýmsa aðila, eiga 63% þeirra sem eru 67 ára og eldri, aðild að félögum eldri borgara.

 

Ritstjórn maí 26, 2017 13:21