Þótti hneykslanlegt að vera bæði flugfreyja og amma

Sigurlín Scheving

Sigurlín Scheving hóf störf sem flugfreyja hjá Loftleiðum 1973. Hún tók við fomannsstarfi Flugfreyjufélagsins 1986 og sinnti því til 1990. Sigurlín var ekki alveg ókunnug flugheiminum þegar hún sótti um starf hjá Loftleiðum á sinum tíma því eftir stúdentspróf 1970 fékk hún vinnu hjá Guðna Þórðarsyni í Sunnu. Hann hafði fengið þá snjöllu hugmynd að stofna flugfélag, Air Viking, til að þjónusta viðskiptavini sína og þurfti að ráða flugfreyjur. Sigurlín fékk starfið og var þess vegna vön þegar auglýst var eftir flugfreyjum hjá Loftleiðum 1973. „Þetta var mikill uppgangstími hjá Loftleiðum og margir ráðnir til starfa,” segir Sigurlín. “Þá voru DC-8 vélar í rekstri og þær tóku 249 farþega svo ráða þurfti marga flugliða. Nú er stór hópur sem byrjaði á þessum tíma að hætta störfum eins og ég eða á allra næstu árum og við höldum enn hópinn. Þetta eru konur sem upplifðu það saman að þurfa að borga hótelin af dagpeningum sínum á meðan flugmönnunum var sköffuð aðstaða á hóteli. „Við vorum þá að fljúga á DC-8 og þar þurfti sex flugfreyjur um borð svo við gátum deilt herbergjum tvær og tvær og sparað pening þannig. Svo var það í samningum 1974 að okkur tókst að semja um sér herbergi  fyrir flugfreyjur eins og flugmenn höfðu náð að semja um mörgum árum fyrr.“

Barátta forgöngukvenna og -manna skilaði sér

Sigurlín segir að svo ótrúlega stutt sé síðan samningar flugfreyja voru fyrir neðan allar hellur að flugliðar sem eru að byrja í starfinu núna trúi varla samanburðinum. Í fundagerðabókum Flugfreyjufélagsins má sjá mörg gullkorn í sögu kjarabaráttu þessa hóps sem sýnir fáránleikann. Í maí 1975 má t.d. sjá eftirfarandi texta: Sáttasemjari skipaði f/f að íhuga betur síðasta tilboð vinnuveitanda. Ef það dygði þeim ekki, þá væru þær bara ekki eðlilegar og teldu sig ekki lengur vera í þessu þjóðfélagi.“ Gullkorn eins og þetta lýsir viðhorfi samfélagsins til þessa starfs  sem í hugum margra hefur verið sveipað ævintýraljóma, og segja má að sé enn. Líklegast á það rætur að rekja til þess tíma þegar aðeins fáir útvaldir áttu þess kost að komast af landi brott og upplifa ævintýri sem „einugis áttu sér stað í útlöndum“. Sáttasemjara hefur fundist það ærið nóg þótt ekki væri líka verið að krefjast hærri launa fyrir viðvikið. Með tilkomu feiri flugfélaga sem hingað fljúga og lægri fargjalda geta fleiri notið þessa munaðar sem ferðalög til útlanda eru. Samt er starf um borð í flugvél enn sveipað þessum ævintýraljóma. Sigurlín minnist þess þegar ein samstarfskona hennar sem byrjaði að vinna skömmu á undan henni var fyrsta flugfreyjan til að verða amma. “Það var mjög umtalað og umdeilt og næstum því hreykslanlegt. Og það er svo stutt síðan. Það má rétt ímynda sér að það hafi ekki haft nein áhrif á starfsgetu þessa starfsmanns að verða amma,” segir hún og hlær. Þegar Sigurlín hóf störf hjá Loftleiðum var hámarksaldur 36 ár. Ýmsar forneskjulegar reglur voru þá við líði og aldursfordómar tröllriðu samfélaginu. Í fyrstu fundargerð FFÍ segir að tilgangur félagsins sé að “auka kynningu og félagslíf meðal flugfreyja og sameina þær um hagsmunamál þeirra. Félagið vill beita sér fyrir því að laun, vinnutími, aðbúnaður við vinnu og önnur kjör meðlimanna svari kröfum tímans.” Þetta var tilgangur félagsins. Nú er í höndum yngra fólks  að halda starfi sterkra forvera áfram.

Leiðrétting á röngu viðhorfi

Sigurlín að koma úr lokafluginu.

Eitt af því sem brann á Sigurlín þegar hún var í starfi formanns var leiðrétting á röngu viðhorfi vinnuveitandans til vaktavinnu. “Við fengum enga umbun fyrir að vinna á öllum dögum ársins hvort sem það var venjulegur mánudagur eða aðfangadagur.” Sigurlín segist vera einna stoltust af því að hafa tekið þátt í því að fá viðurkenningu á því að vinna á lögbundnum frídögum væri metin til hærri launa. „Þetta varð síðan til þess að síðar var samið um fast vaktaálag fyrir flugstéttirnar,“ segir hún.

Barneignirnar erfiðastar

Sigurlín segir að eðli málsins samkvæmt krefjist barneignir mikillar skipulagningar hjá fólki sem starfi við flug. Á fyrstu árum flugsins þótti óhugsandi að konur gætu verið bæði flugfeyjur og mæður. Það var í lögum Loftleiða að konur misstu vinnuna ef þær urðu ófrískar og lögin sögðu líka til um að þær mættu ekki vera giftar. Þessi úreltu lög höfðu verið felld úr gildi þegar Sigurlín hóf störf hjá Loftleiðum 1973. Hún eignaðist fyrra barn sitt og eiginmannsins, Björns Th. Árnasonar, 1976. Þá var skilyrði að konur hæfu störf aftur að loknu þriggja mánaða barneignarfríi en slíkt þætti óhugsandi í dag. Þá upphófst tímabil sem Sigurlín segir að renni sér seint úr minni þar sem eiginmaður hennar fór utan í nám skömmu síðar og hún var ein með barnið í nokkurn tíma. Foreldrar hennar voru þá látnir en  góðhjörtuð móðir vinkonu hennar tók að sér að gæta barnsins á meðan Sigurlín fór í flug og það bjargaði henni algerlega. Þegar hún tók svo við formannsstarfinu 1986 komst hún fljótlega að því að hún átti von á yngra barni sínu. Hún hélt sjálf að hún gæti ekki  verið bæði formaður og eignast barn en stjórn félagsins tók ekki í mál að hún hætti af þeim sökum svo úr varð að síðari hluta meðgöngunnar sinnti hún formannsstarfinu eingöngu og fór svo aftur að fljúga eftir barneignarfrí.

Ævistarf margra

Margar flugfreyjur og -þjónar hafa gert flugfreyjustarfið að ævistarfi og þar á meðal er Sigurlín. Hún segir að starfið hafi alla tíð átt sérlega vel við sig og að jafnvel þótt hún hafi reynt að undirbúa sig vel undir starfslok sitji eftir tómarúm. Hún segist vera svo heppin að vera heilsuhraust og hafa enn fulla starfsorku. „Ég viðurkenni alveg að ég sakna starfsins en reglurnar eru þessar og undan því veður ekki vikist. Ég er alveg viss um að aldurstakmark verði hækkað þegar kemur að starfslokum flugliða. Við búum yfir svo mikilli reynslu og kunnáttu sem ég veit að vegur upp hærri aldur. Ég hætti störfum í júní síðastliðinn og er sátt þótt ég sakni starfsins.

Hittast á miðvikudagsmorgnum og ganga saman

Sigurlín er í hópi fyrrverandi og starfandi flugfreyja sem hittast á miðvikudagsmorgnum og ganga saman í 1-2 klukkutíma „og ekki skemmir ef gott kaffihús er í nágrenninu“, segir hún brosandi. “Í göngunum gefst okkur, sem eru hættar, tækifæri til að vera í tengslum við starfið og okkur þykir það gott,” segi þessi hressilega kona sem er full af starfsorku en hefur nú verið gert að hætta að vinna.

Berglind Hafsteinsdóttir

Berglind Hafsteinsdóttir – nýr formaður 

Berglind Hafsteinsdóttir tók nýverið við starfi formanns Flugfreyjufélags Íslands sem stofnað var 1954 og Berglind segir að konurnar  sem stóðu í eldlínunni á fyrstu áratugum félagsins séu einmitt núna að hætta störfum. „Þessar konur börðust fyrir réttindum sem við njótum sannarlega góðs af í dag,“ segir Berglind. „Þetta voru mál sem okkur finnast sjálfsögð eins og bara það að fá skaffaðar sokkabuxur frá fyrirtækinu eða vetrarbúning o.s.frv.  Þessar konur þurftu líka að berjast fyrir því að missa ekki vinnuna þegar þær giftust eða urðu barnshafandi. Mig langar að sýna þessum konum virðingu og veita þeim meiri þjónustu þegar nálgast starfslok en hefur verið gert. Ég vil að félagið haldi utanum þær og réttindi þeirra á áþreifanlegan hátt.“

Reynslan af vinnunni í háloftunum hjálpar

Berglind stundaði nám við Háskóla Íslands í lögfræði áður en og á meðan hún starfaði sem flugfreyja hjá Icelandair þar til hún tók við formannsstarfinu. Hún hefur því mikla reynslu af starfinu í  háloftunum og þekkir vel  til þarfa og réttinda flugliða. Flugfreyjufélag Íslands er eina stéttarfélag flugfeyja og -þjóna á Íslandi en starfsmenn Flugfélags Íslands, Icelandair og Wow air eru allir félagar í Flugfreyjufélaginu. Félagsmenn eru rúmlega 1800 þegar mest er yfir sumartímann en fækkar aðeins í takt við áætlanir flugfélaganna yfir veturinn. Það er því í mörg horn að líta og Berglind hefur staðið í ströngu frá því hún tók við formannsstarfinu því mikill órói hefur verið í flugheiminum með auknum fjölda flugfélaga sem fljúga til og frá Íslandi og þar með fjölda flugliða.

Vinnan fylgir manni heim

Berglind segir að nú hafi hún samanburðinn við flugfreyjustarfið sem sé sannarlega ábygðamikið og erilsamt starf en að lokinni flugferð sé starfið skilið eftir og flugliðinn getur farið rólegur heim. Nú segir hún að fullyrða megi að hún sé hins vegar alltaf í vinnunni og alltaf hægt að vera að vinna við aðkallandi verk í ýmsum myndum. Fyrri formenn hafa yfirleitt verið starfandi flugfreyjur meðfram formannsstarfinu en Berglind ákvað að einbeita sér alfarið að formannsstarfinu í þann tíma sem hún tók það að sér, en hún er ráðin til tveggja ára.

Flugfreyjustarfið ólíkt öðrum störfum

Berglind segir að flugfreyjustarfið sé ólíkt mörgum öðrum störfum þar sem hópurinn um borð verði að vinna mjög náið saman til þess að hver einasta flugferð heppnist vel, ekki bara öryggisatriðin heldur skipti vellíðan farþeganna miklu máli. Þess vegna verði samband vinnufélaganna mjög náið jafnvel þótt í hverri ferð séu nýir starfsfélagar.

 

 

Ritstjórn október 27, 2017 11:35