Til fundar við Paul sjálfan

Jónas Haraldsson.

Jónas Haraldsson blaðamaður skrifar:

Það breyttist allt með Bítlunum, að minnsta kosti í okkar aldurshópi, barnanna í Breiðagerðisskóla á sjöunda áratug liðinnar aldar. Tónlistin, fatatískan og hártískan. Byltingin varð ekki bara í Breiðagerðisskólanum. Bítlarnir breyttu heiminum, fjórmenningarnir frá Liverpool lögðu hann að fótum sér, þeir John Lennon, Paul McCartney, Georg Harrison og Ringo Starr. Unglingarnir trylltust, ungmeyjar féllu í öngvit, hár pilta tók að síkka að hætti fyrirmyndanna, fyrst toppurinn og síðar yfir eyrun. Foreldrar og forráðamenn vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið og hárskerar reyttu hár sitt, þeir höfðu ekki annarra manna hár að reyta, að minnsta kosti ekki ungmenna.

Tónlist Bítlanna var stórkostleg, hver smellurinn á fætur öðrum. Strákarnir ungu voru draumafabrikka. Vörumerkið Lennon & McCartney varð heimsþekkt, eitthvert öflugasta tónsmíðadúó sem sögur fara af. Samstarf þeirra skilaði okkur ómetanlegum og ódauðlegum perlum. Hið sama á raunar við um þá John og Paul sem héldu áfram lagasmíðum og tónlistarflutningi eftir að Bítlarnir hurfu hver í sína áttina. Kannski var upplausn hljómsveitarinnar Yoko Ono, konu Johns, að kenna, kannski ekki. Allt á sinn tíma, líka sú magnaða hljómsveit The Beatles. Við getum að minnsta kosti ekki amast við Yoko. Hún er Íslandsvinur og heldur minningu Lennon á lofti með friðarsúlunni í Viðey eftir að óbermið David Chapman myrti hann í New York, aðeins fertugan að aldri.

John hvarf því úr heimi langt fyrir aldur fram og George féll einnig frá á besta aldri, aðeins 58 ára, af völdum krabbameins. Ringo og Paul lifa hins vegar og hafa báðir sótt Ísland heim. Ringo gerði góða ferð hingað um árið þegar hann djammaði með Stuðmönnum í Atlavík og drakk koníak í kók. Það hefði þótt undarlegur kokteill ef einhver annar en hinn heimsfrægi bítill hefði beðið um slíkt. Paul hefur líka átt sína daga hér á landi. Enn fæ ég sting í magann þegar ég hugsa til þess að blaðamaður og ljósmyndari á minni vakt á síðdegisblaðinu eltu popparann heimskunna á götum Reykjavíkur og hröktu hann að lokum upp á umferðareyju til þess að ná af honum mynd. Það eina sem ég get huggað mig við að ég vissi ekki af þessum papparassastælum minna manna fyrr en eftir á. Stórstjörnur, líkt og aðrir, eiga að fá þokkalegan frið sæki þær okkur heim.

Meistarinn Paul McCartney lifir svo sannarlega og hefur átt farsælan feril eftir að The Beatles söng sitt síðasta. Hann er elskaður og dáður um allan heim, meira að segja aðlaður af Elísabetu drottningu í Buckingham. Okkar maður er því Sir Paul McCartney. Þótt ekki líði lengur yfir ungmeyjar við það eitt að heyra hann og sjá hrífst unga kynslóðin, líkt og þær eldri, enn af lagasmíðum og flutningi hans. Hann hefur verið duglegur að fara víða um lönd og halda tónleika, þótt aldrei hafi hann komið til Íslands. Kannski er það papparassanum mínum að kenna, hver veit. Þar er Paul McCartney á sama báti og eilífðarunglingarnir í The Rolling Stones, sem öttu kappi við Bítlana á sínum tíma. Þeir eru alltaf jafn sprækir þótt þeir séu óneitanlega orðin talsverð hrukkudýr. Paul heldur sér betur, mjúkur í framan eins og barnsrass.

Ég hef lengi alið með mér þann draum að sjá Paul á sviði, en aldrei látið verða af því. Það er svo margt sem maður getur hugsað sér en framkvæmir ekki. Ég hef aðeins nefnt þetta innan fjölskyldunnar og nokkrum sinnum kíkt eftir tónleikaferðum hans á netinu án þess að málið næði lengra. Nýverið sátum við hins vegar saman í sitt hvorum stólnum, ég og tengdasonur minn. „Ætlið þið ekki til Kaupmannahafnar fyrir jólin,” spurði strákurinn. Ég játti því. Þar býr sonur okkar með fjölskyldu sinni og yngsta barnið þar á afmæli í desemberbyrjun. Það hentar því vel að sameina afmælisferð og koma jólagjöfunum á sinn stað með Danmerkurheimsókn í upphafi jólamánaðar. „Hvenær farið þið,“ spurði strákurinn. „1. desember,” svaraði ég. „Paul,” hélt tengdasonur minn áfram, „er að spila í Kaupmannahöfn kvöldið áður, 30. nóvember, hvað ætlar þú að gera í því?”

„Ja, hvurt í logandi, nú dugar ekkert hangs,” sagði ég og stökk upp úr stólnum. Þarna var tækifærið komið. Paul McCartney enn í fullu fjöri – og nær kemst maður honum væntanlega ekki en í Kaupmannahöfn – og þangað áttum við hvort sem er erindi. Hófst nú hröð atburðarás. Mín góða eiginkona var til í tuskið svo Kaupmannahafnarsonur okkar var settur í að redda tveimur miðum, því það seldist hratt upp á Paul. Það lukkaðist svo flugmiðunum var breytt, ferðin var færð fram um einn dag.

Í lok nóvember munum við því loksins sjá goðið, sjálfan Paul McCartney á sviði, strákinn sem, með félögum sínum, gerði allt vitlaust í okkar ungdæmi. Það verður eitthvað.

Ég vona bara að Paul komist ekki að því, rétt áður en hann tekur Hey Jude, að í salnum sé maður sem bar ábyrgð á papparassaskratta sem gerði honum lífið leitt þegar hann hugðist njóta kyrrðarstunda í fámenninu á Íslandi á sínum tíma.

Jónas Haraldsson september 24, 2018 08:30