Undirskriftasöfnun fyrir bættum kjörum eldri borgara

Söfnun undirskrifta til að knýja á um betri kjör eldri borgara og öryrkja hófst í morgun á vefsíðunni Island.is.  Söfnunin fer fram undir yfirskriftinni Engan skort á efri árum og í textanum með henni segir: „Lífeyrir aldraðra og öryrkja dugar ekki til framfærslu. Ætlunin er að knýja fram það háan lífeyri að aldraðir geti átt áhyggjulast ævikvöld og öryrkjar þurfi ekki að kvíða morgundeginum“.

Ábyrgðarmaður undirskriftasöfnunarinnar er Erla Magna Alexandersdóttir. Hún segir mikilvægt að þrýsta á um að ellilífeyrir verði hækkaður og allar þær bætur sem menn hafa sér til framfærslu.  Erla Magna segist sjálf vera ellilífeyrisþegi og hafa bloggað um lífeyrismálin í mörg ár. Það hafi engin áhrif haft. „Menn tala ekki einni sinni um gamla fólkið á Alþingi. Það á greinilega ekki að gera neitt í málefnum aldraðra. Það hækkar allt, matur, bensín og húsaleiga, en lífeyrir hækkar ekkert. Ég þekki marga sem berjast í bökkum og þó ég eigi húsnæði sjálf skil ég hvernig það er að þurfa að borga háa húsaleigu“, segir hún.  Hún gefur ekki mikið fyrir hópinn sem ríkisstjórnin setti á laggirnar til að bæta kjör eldri borgara. „Ríkisstjórnin er sjálfsagt búin að gleyma hvað hún er með marga hópa og stofnanir í að skoða þetta. Það heyrist alla vega ekkert frá þessum hópi, þannig að almenningur veit ekkert hvað þar er að gerast“.

Undirskriftasöfnunin mun standa í 48 daga, eða til 8.október næst komandi. Með því að smella hér má komast inn á Island.is þar sem undirskriftalistinn er. Það er hins vegar ekki hægt að komast inní hann og skrá sig á hann, nema nota til þess rafræn skilríki. Erla Magna segir að þeir sem geti ekki notað slík skilríki, geti safnað undirskriftum á lista og sent hann á netfangið  skra@skra.is . Þar sé tekið við nöfnunum og þau skráð inná listann.

Erla Magna segir að undirskriftirnar verði afhentar ríkisstjórninni, þegar söfnuninni lýkur. Hún hvetur svo að sjálfsögðu alla til að skrifa undir.

Ritstjórn ágúst 27, 2018 13:10