Upplifa frelsi unglingsáranna að nýju á efri árum

Á vef danska Ríkisútvarpsins, er fjallað um nýja kynslóð eldra fólks. Þar er hún  kölluð  „Seenagerne“, sem er sambland orðanna senior, eða eftirlaunamaður og teenager, eða unglingur.  Heitið tengist þeim veruleika, að margir sem eru að hætta að vinna og komast á eftirlaun, geta vænst þess að eiga 10-15 góð ár framundan. Þeir upplifa því frjálsræði unglingsáranna á nýjan leik, þurfa ekki að mæta í vinnu og geta sinnt áhugamálum sínum, áður en elli kerling fer að hrjá þá að ráði. Lítum á sex atriði, eins og þau snúa að þessari nýju kynslóð.

Vinnan. Margir hætta ekki alveg að vinna, heldur halda áfram í ýmsum verkefnum. Það má líka finna eftirlaunafólk sem snýr algerlega við blaðinu. Hættir þá kannski að vinna, en snýr sér af miklum krafti að því að sinna áhugamálum sínum, svo sem ástríðu fyrir vínrækt, fyrir bílum eða fyrir að stunda ákveðna líkamsrækt.

Heilbrigði. Þeir vilja gjarnan – og gera það líka – hafa áhrif á eigið heilbrigði. Þeir stunda líkamsrækt, borða holla fæðu og reyna að fyrirbyggja sjúkdóma í ellinni. Og þegar að því kemur að þeir þurfa að fara á elli- eða hjúkrunarheimili, þá vilja þeir hafa áhrif lá hvernig það verður. Þeir vilja ekki bara láta setja sig „í geymslu“ á stofnunum.

Sambönd. Þessi hópur, sem er að komast á eftirlaun, er fyrsti hópuirinn sem hefur lifað við raðhjónabönd, ef þannig má að orði komast. Eða gift sig oftar en einu sinni og jafnvel oftar en tvisvar á ævinni. Margir í hópnum búa ekki lengur með þeim sem þeir áttu börnin sín með. Þess vegna eiga þeir  ekki barnabörnin sín beinlínis með þeim. Þetta skiptir máli í sambandi við parsambönd og tilfinningasambönd við núverandi maka. Á þessum aldri er líka algengara að fólk eigi einn félaga sem það stundar menninguna með, annan sem það ferðast með og svo framvegis.

Barnabörnin. Þessi hópur leggur áherslu á að vera með barnabörnunum á eigin forsendum. Það er að segja, hann vill gjarnan passa barnabörnin, ef það rekst ekki á dagskrána í golfklúbbnum eða helgarferðina til Parísar.

Húsnæðið. Það er tilhneiging til þess í húsnæðismálum og ekki endilega bara þessa aldurshóps, að vilja búa í meira sambýli, segir á þessum danska vef. Þar sem er til dæmis hægt að elda saman og borða saman og þar sem ákveðin svæði eru sameiginleg, þó allir hafi jafnframt sína eigin íbúð.

Vinirnir: Að þessu leyti standa þeir sem eru á leiðinni á eftirlaun, með fæturna í sitt hvoru fyrirkomulaginu. Þeir eru með annan fótinn í hefðbundna fjölskyldumynstrinu, þar sem menn eru í mun meiri samskiptum við blóðskylda ættinga sína, en vinina. En þeir eru líka komnir með annan fótinn inní framtíðina, þar sem fólk lítur í auknum mæli á vinina, sem sína nýju fjölskyldu, fólk sem þeir eru mikið í sambandi við og gera ýmislegt með. Þetta er vaxandi tilhneiging og á eftir að verða mun sterkari eftir 20 ár, en hún er núna.

Þessar lýsingar eru komnar frá Mette Sillesen, sem er titluð á danska vefnum sem fremtidsforsker.

Ritstjórn maí 9, 2017 13:09