Uppsögnin var ofboðslegt högg

vedurstofa íslands klippt„Það var enginn aðdragandi að uppsögninni, hún kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta var alveg ofboðslegt högg,“ segir Jenný Olga Pétursdóttir, fyrrverandi tölvari á Veðurstofu Íslands. Jenný var í hópi sex tölvara sem sagt var upp á Veðurstofunni í lok apríl og létu tölvararnir af störfum þann fyrsta nóvember síðast liðinn. Þetta voru elstu starfsmenn stofnunarinnar en samanlögð starfsreynsla þeirra spannar á þriðja hundrað ár. Jenný Olga hóf störf á Veðurstofunni þegar hún var 19 ára, árið 1970, og vann þar með einu stuttu hléi þangað til hún varð að hætta. Starfsferill hennar spannar 44 ár. Það eru margir sem sakna tölvaranna sem lásu veðurfréttir og veðurlýsingar á Rás eitt og mörgum brá í brún þegar Jenný Olga las sinn síðsta veðurfréttatíma þann 31.október síðast liðinn. Jenný Olga þakkaði samfylgdina í hart nær fjörtutíu ár og kvaddi með þessum orðum, „lifið heil og verið þið sæl.

Fékk áhuga á verðrinu

„Þetta var skemmtilegt starf. Ég hafði aldrei spáð í veður áður en ég fór að vinna á Veðurstofunni en mér fannst þetta spennandi. Þegar maður vinnur við þetta fær maður ósjálfrátt áhuga á veðrinu,“ segir hún. Tölvarnir unnu á tólf til þrettán tíma vöktum, sinntu bæði dag og næturvöktum. Starf þeirra var ansi fjölbreytt. Auk þess að lesa veðurfréttir í útvarpið sinntu þeir verðurathugunum fyrir Reykjavík á þriggja klukkustunda fresti, á Reykjavíkurflugvelli á klukkustundarfresti og oftar ef veður voru válynd. Þýddu sjóveðurspár, stutt verðuryfirlit, stutta spá fyrir landið og fjöldægru yfir á ensku, lásu inn á símsvara Veðurstofunnar, fylgdust með jarðskjálfta- og vatnavöktunarkerfinu, og sáu um að veðurspár veðurfræðinganna kæmust óbrenglaðar úr húsi, svöruðu í símann og svo mætti lengi áfram að telja. Starfið breyttist mikið í tímans rás, og tölvararnir voru stöðugt að læra nýja tækni og nýja hluti. „Ég held að okkur hafi tekist vel að fylgjast með því sem var að gerast á hverjum tíma,“ segir Jenný Olga.

Var á leið í vaktafrí

Nýtt tímaskeið runnið upp.

Nýtt tímaskeið runnið upp.

Jenný Olga segir að aðdragandinn að uppsögninni hafi verið engin. Hún var trúnaðarmaður tölvara á Veðurstofunni og í samninganefnd SFR –stéttarfélags í almannaþágu. Hún segist dagana á undan, ásamt framkvæmdastjóra SFR, hafa verið að reyna að ná sambandi við mannauðsstjóra Veðurstofunnar til að reyna fá fund með honum til að fara yfir launamál tölvaranna. „Ég er á fundi niður í SFR á fimmtudegi og er á leiðinni á næturvakt. Það var tilkynnt um fund klukkan níu morguninn eftir í SFR. Þegar næturvaktin var búin fannst mér ekki taka því að fara heim enda bara einn og hálfur tími í að fundurinn ætti að hefjast. Ég dokaði því við á Veðurstofunni og fór svo upp á skrifstofu SFR. Þá er sagt við mig að þetta yrði átaka fundur, það væru uppsagnir í gangi. Ég kom af fjöllum. Þegar við vorum búin að vera á fundinum í svona tvær mínútur, sá ég hvar yfirmaður minn og mannauðsstjórinn biðu fram á gangi. Þá voru þau komin til að segja mér upp. Ég var á leiðinni út á land í vaktafríinu mínu og það vissu þau. Annars hefði okkur öllum verið sagt upp á mánudeginum 27. apríl,“ segir Jenný Olga og bætir við að hún hafi mátt velja um að hætta strax eða vinna uppsagnafrestinn sem voru sex mánuðir. Hún segir að helgin eftir uppsögnina hafi verið mjög erfið sér í lagi þar sem tekið var af henni loforð um að hún mætti ekki segja samstarfsmönnum sínum frá uppsögnunum.

Ekki gjaldgeng með BA próf

Uppsagnir tölvaranna koma í kjölfar skipulagsbreytinga á Veðurstofunni. Ákveðið var að sameina þrjú svið í eitt og í leiðinni var ákveðið að það mætti enginn vinna störf tölvara nema vera með BS háskólagráðu. „Við erum tvö sem vorum með BA próf, ég í félagsráðgjöf og annar sem er með BA í guðfræði. „Við þóttum ekki gjaldgeng í þessi störf með BA próf. Skrýtið vegna þess að við höfðum vaktað þessi kerfi og það eina sem ég held að ég kunni ekki, er að staðsetja jarðskjálfta. Mér er

sagt að það sé ekkert mál og ég hefði alveg verið til í að læra það. Það reyndi hins vegar aldrei á það því ég fékk aldrei að prófa. „Ég stefndi að því að fara í hálft starf á Veðurstofunni. Síðustu dagarnir þar voru ekkert sérstaklega erfiðir. Maður var búinn að taka út reiðina og pirringin. Vinnan hefur verið mín lífsfylling og það fylgir því mikil sorg að missa hana. Þetta er ofboðslega erfitt en þó betra að því leyti að mér var ekki sagt upp einni heldur fór allur hópurinn á einu bretti. Það hefði ekki þurft að standa svona að málum. Við vorum tvö um sextugt hinir voru að nálgast starfslok. Það hefði verið hægt að leyfa okkur að vinna fram að sjötugu. Ég er í góðu formi og hefði vel treyst mér til þess. Maður er ekkert tilbúinn að hætta að vinna og skerðast verulega í launum,“ segir hún.

Það vilja allir vinna

Jenný Olga segir að vinnan göfgi manninn.

Jenný Olga segir að vinnan göfgi manninn.

Jenný Olga segist líta svo á að hún sé núna í sumar eða vetrarfríi. „Mig langar að athuga hvort ég fái ekki eitthvað að gera og nýta til þess BA prófið mitt í félagsráðgjöf. Mig langar í 50 prósent starf, það væri gaman. Vinnan er svo stór hluti af okkur. Það vilja allir vinna, vinnan göfgar manninn og mér finnst gaman að vera innan um fólk.“ Jenný Olga sem á ættir sínar að rekja til Keflavíkur er gift og á þrjá syni og sex barnabörn. Hún er forfallinn golfari. „Það er ekki svo langt síðan ég fór að spila golf, ætli það hafi ekki verið sumarið 2009 eða 2010. Ég var svo heppinn að eiga vinkonu sem spilar golf og hún nennti að dröslast með mér og kenna mér. Það er alltaf hægt að fara ein út á golfvöll, annað hvort spilar maður einn og ef mann langar í selskap þá eru alltaf einhverjir sem eru tilbúnir að spila með manni,“ segir Jenný Olga að lokum.

 

Ritstjórn nóvember 19, 2015 10:14