Utanlandsferðir eru óþarfi og peningaeyðsla

 „Fyrir nokkrum árum fórum við að senda nemendur á námskeiðinu tómstundir og eldra fólk, í vettvangsrannsóknir á dvalarheimili og í félagamiðstöðvar eldri borgara til að skrá tómstunda og félagsmálasögur fólks sem er orðið 70 ára og eldra,“ segir Árni Guðmundsson, aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Auk þess að skrá tómstunda og félagsmálasögu hvers og eins, er safnað bakgrunnsupplýsingum um viðkomandi svo sem hvað hann vann við, búsetu, fjölda barna, atriði sem hægt er að nota í félagslegt flokkunarkerfi. Viðtölin eru ekki undir nafni. „Nú er búið að taka um 200 viðtöl. Það á eftir að greina þau en ég sé að samnefnarinn í þessu er að góðum áhugamálum sem endast út lífið fylgja mikil lífsgæði,“ segir Árni.  Hann segir að sögurnar séu jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Við erum að skrá sögur fólks sem hefur átt ríka ævi, fulla af skemmtilegum áhugamálum og svo hefur verið rætt við fólk sem á engin áhugamál. Lifðu núna fékk góðfúslegt leyfi til að birta sögur nokkurra einstaklinga og hér er sú fyrsta.

Send í fóstur sex ára

Svana fæddist árið 1920, hún er lágvaxin grönn, fíngerð örlítið bogin í baki og dökk yfirlitum þó hárið sér farið að grána. Svana ólst upp í sveit og var elst fjögurra systkina en vegna þrenginga heimafyrir var hún send í fóstur sex ára gömul á sveitabæ í næstu sveit. Þar ólst hún upp við vinnusemi og segir að sér hafi liðið vel á bænum. Fóstra hennar var góð við hana og hún hafði nóg að borða. En uppeldið var ekki mjög ástríkt. Svana lærði snemma hannyrðir af ýmsu tagi heima hjá sér og hjálpaði til eins og hún gat bæði úti og inni, allir sem vettlingi gátu valdið gerðu það. Eitt af skyldustörfum Svönu var að gæta kúnna, en hún segist lengi hafa verið skíthrædd við þær en varð að láta sig hafa það. Hún segist hafa leikið sér eitthvað eins og börn gera þegar tóm gafst til.

Giftist sjómanni

Eina leikfangið sem Svana átti í æsku var brúða. Hún fékk að gjöf postulíns brúðuhöfuð frá konu í sveitinni þegar hún var átta ára. Það var saumaður búkur neðan á hausinn og hlaut brúðan nafnið Rósa. Eitthvað voru hlutföllin í dúkkunni ekki í lagi svo saumaður var nýr og betri búkur seinna og vakti hann mikla gleði hennar.  Hún saumaði og prjónaði föt á Rósu úr afgangs garni og efni. Svana á þessa brúðu enn þann dag í dag, rúmlega áttatíu árum síðar. Skólagangan var stutt það kom farkennari sem kenndi nokkrum krökkum úr sveitinni lestur, reikning og skrift. Þetta var aðeins í fá ár, nokkrar vikur í senn. Hún las þær bækur sem hún náði í og hafði gaman af, henni leiddist aldrei og hafði alltaf nóg að gera. Svana giftist sjómanni tuttugu og tveggja ára gömul, hjónin fluttu til Reykjavíkur og keyptu sér þriggja herbergja íbúð sem hún býr enn í. Maður Svönu drukknaði eftir að þau höfðu verið gift í skamman tíma. Þeim hjónum varð ekki barna auðið. Svana giftist ekki aftur, hún hefur því búið ein nær öll sín fullorðins ár.

Nýtni og nægjusemi

Hún vann við saumaskap til ársins 2001 og fór í hálft starf í einhvern tíma eftir það. Svana hefði viljað vinna lengur en það var ekki í boði þrátt fyrir að hún sé hraust og hafði sjaldan verið frá vinnu vegna veikinda. Svana hefur aldrei sótt skipulagðar tómstundir og segist ekki hafa neinn áhuga á því, hún saumar mikið í og les og telur hún það vera sér nægar tómstundir, hún er sjálfri sér nóg. Hún lifir spart, á ekki bíl og hefur aldrei tekið bílpróf. Svana reynir að fara í gönguferðir um nágrennið daglega. Í sumarfríum sínum í gegnum árin hefur hún verið að mestu heimavið en fer þó á hverju vori og setur blóm á leiði foreldra sinna og systkina og eiginmanns. Þá tekur hún rútu út á land eða ættingjar aka henni. Nýtni og nægjusemi lýsir þessari konu, hún er einfari og virðist ekki hafa neinn sérstakan áhuga á félagsskap. Svana hefur þá skoðun að fullorðið fólk eigi ekki að leika sér, og finnast henni utanlandsferðir óþarfi og peningaeyðsla. Hún hlustar á fréttir í útvarpi og sjónvarpi en horfir lítið á sjónvarpið að öðru leiti, sækir ekki tónleika, bíó eða aðra menningu.

Ritstjórn nóvember 26, 2015 10:35