Varar við öfgum í mataræði

Það þarf skipulag til að megrast. Það gerist ekki af sjálfu sér. Það þarf að borða minna, helst minna en 2000 hitaeiningar á dag. Menn þurfa að vera duglegir að hreyfa sig og huga vel að næringunni. „Það eru engar aðrar töfralausnir til“, segir Bára Magnúsdóttir hjá JSB við konurnar sem mættu hjá henni eftir áramótin til að léttast. Hún segir meginatriðið að taka ákvörðun um að megrast „Þið léttist ekki ef þið viljið það ekki“ bætir hún við. Hún segir að ekkert sé jafn óhollt og að burðast með aukakílóin. Varðandi mataræðið varar hún við öfgum á borð við að sykur sé eitur. „Við þurfum að borða sykur“, segir hún „ og við þurfum að borða hveiti. Það er ekki hveitinu að kenna að við borðum of mikið brauð“ En það sé ágætis regla að forðast mjölmat, sætindi og fitu. Hún vill einnig taka pasta, kartöflur og hrísgrjón út fyrir sviga. Menn þurfi að passa sig á hitaeiningunum í þessum mat, en það sé hægt að lifa á honum eingöngu. En borði menn kartöflur og pasta og ALLT annað með þannig að hitaeiningarnar verði of margar „þá fitna þeir“ segir hún. Bára mælir með því að allir drekki sítrónuvatn daglega. „Það hreinsar og líkaminn starfar örar“, segir hún. Lýsið sé líka ómissandi. „Allir Íslendingar taka lýsi“ segir Bára. „Við sem búum hér í þessu myrkri verðum að gera það. Við þurfum að lifa við það að við höfum ekki sól, en við höfum lýsið og fyrir 50 árum vissi fólk það“. Bára ráðleggur 1-2 skeiðar af venjulegu þorskalýsi daglega. Hún segir konurnar eiga að ráða því hvort þær taki einhver bætiefni á meðan þær séu að megra sig. Venjuleg manneskja þurfi ekki nema 2200-2400 hitaeiningar á sólarhring, en vilji helst innibyrða 3400. „Svo eru helgar vikulega, jól og áramót, fimmtugsafmæli og þorrablót og þessu verðum við að stjórna segir Bára.

 

Ritstjórn febrúar 24, 2016 12:05