Vatnið bætir meltinguna

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar

Fólki á sextugsaldri og eldra nægir yfirleitt fæði sem telst almennt séð heilsusamlegt, sérstaklega ef þetta fólk er við góða heilsu og hreyfir sig reglulega. Hinsvegar eykst hætta á næringarskorti ef heilsan bilar eða matarlystin minnkar og þá þurfa menn að gæta sérstaklega að því.

Þeir sem hreyfa sig lítið ættu að borða minna því að þeir þurfa minni orku, aðallega vegna vöðvarýrnunar og minni hreyfingar. Í upplýsingum frá Embætti landlæknis um mikilvægi hollrar fæðu fyrir heilsuna á efri árum kemur fram að þeir þurfa samt að fá öll vítamín, steinefni, prótein og trefjaefni þó að það sé í minni fæðuskömmtum en áður.

Drekka 2 lítra á dag

Þorstatilfinning minnkar með aldrinum en samt er þörfin fyrir vatn og annan vökva sú sama. Mikilvægt er að drekka tvo lítra af vökva á dag, helst þrjú til fjögur glös af vatni, tvö glös af fitulítilli mjólk eins og léttmjólk eða undanrennu, eitt glas af hreinum ávaxtasafa og kaffi eða te.

Margir aldraðir eiga stundum við hægðatregðu að stríða vegna hreyfingarleysi og skorti á trefjaefnum og vökva. Ýmsir sjúkdómar og lyf auka á þennan vanda og því þurfa aldraðir að borða meira af grænmeti og ávöxtum. Sömuleiðis þurfa þeir að borða meira af heilkornavörum eins og grófu brauði og trefjaríkum kornmat.

Kalkið er mikilvægt

Þörfin fyrir kalk minnkar ekki með árunum. Gott er að drekka tvö glös af fituminni mjólk eða fituminni sýrðum mjólkurvörum á dag. Ostur er auðvitað góður og svo er auðvitað sígilt að fá sér léttmjólk, fjörmjólk, undanrennu, létta AB-mjólk og sýrða léttmjólk. Kalktöflur geta komið í stað mjólkur.

Ferskur matur er alltaf betri en unnin matvara. Ferskt kjöt er betra en unnar kjötvörur á borð við fars, saltað kjöt eða reykt. Fiskur er æskilegur á borðið tvisvar í viku og þá bæði feitur fiskur og magur. Matarolía er æskileg í stað smjörs eða smjörlíkis við matseldinu.

Landlæknisembættið ráðleggur fólki að taka inn D-vítamín og borða minna af tilbúinni matvöru eins og pakkasúpur og sósur. Þá er rétt að lágmarka saltneysluna eins og hægt er.

Ritstjórn júní 25, 2014 13:36