Veikindi hafa áhrif á tannheilsu

Rannsóknir benda til þess að slæm munn- og tannheilsa sé viðvarandi vandi hjá öldruðum einstaklingum “ segir Hólmfríður Guðmundsdóttir, tannlæknir hjá Landlæknisembættinu.  Í þessu sambandi bendir hún á að tennur í munni þurfi að hreinsa og að skert andleg og líkamleg færni til sjálfsumönnunar, hegðunarbreytingar, skortur á samvinnu, munnvatnsþurrð og margþætt veikindi hafi neikvæð áhrif á tannheilsu.

Tannlausum fækkar

Hólmfríður segir að þar sem öldruðu fólki fjölgi jafnt og þétt og tannlausum eldri borgurum fækki hratt, sé ljóst að vaxandi þörf sé á heildrænni tannheilbrigðiþjónustu fyrir þetta fólk.Innan við tíu prósent fólks á aldrinum 65 til 79 ára er með 28 tennur eða fleiribæði  í efri og neðri  góm. Í næsta aldurshópi þar fyrir neðan eða í hópnum sem er á aldrinum 55 til 64 ára, eru 28 prósent fulltennt. Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein sem Hólmfríður og Jón Óskar Guðlaugsson skrifuðu í Talnabrunn, fréttabréf Landlæknisembættisins.

Auðveldara með að tjá sig

Tannheilsan hefur  batnað undanfarin ár. Fyrir  um aldarfjórðungi voru einungis 2,6 prósent í elsta aldurshópnum með allar eigin tennur og í aldurshópnum þar fyrir neðan var hlutfallið um 3,7 prósent. Í kjölfar batnandi tannheilsu hefur notkun á lausum tanngervum svo sem fölskum tönnum og pörtum minnkað.Hólmfríður segir að það felist aukin lífsgæði í því að vera með eigin tennur.  Fólk sem haldi tönnunum eigi auðveldara með að tjá sig, tala og tyggja mat sinn. Hún segir að ýmsir þættir svo sem félagsleg staða, efnahagur og menntun hafi áhrif á tannheilsu og að á komandi árum muni hjúkrunarheimili standa frammi fyrir auknum og erfiðari verkefnum varðandi tannhirðuumönnun eldra fólks.

Ritstjórn desember 1, 2014 11:35