Vertu skuldlaus þegar þú hættir að vinna

Ástbjörn Egilsson hefur ævinlega verið að vasast í félagsmálum og þegar hann og konan hans Elín Sæmundsdóttir fluttu úr miðbæ Reykjavíkur í Sjálandshverfið í Garðabæ gekk hann í Félag eldri borgara þar og er nú formaður félagsins. Það hefur mikið verið rætt um kjör eldri borgara að undanförnu, meðal annars þá staðreynd að um 70% fólks sem er 67 ára og eldra hefur tekjur sem eru undir 300.000 krónum á mánuði. „Ég þykist hafa áttað mig á að þetta væri svipað og ræð það af viðtölum við vini og kunningja. Þetta mál er ofarlega á baugi hjá öllum. Mér heyrast mjög margir vera með um 100 þúsund krónur á mánuði úr lífeyrissjóði“, segir Ástbjörn.

Ástbjörn passamynd 2Varasjóðurinn kannski farinn

Hann segir að sem betur fer fari greiðslur úr lífeyrissjóðunum hratt hækkandi, en tölur um tekjurnar séu ein vísbendingin um hvar fólk sé statt. „En það skiptir líka máli hvort fólk er eitt, eða hvort hjón hafi hvort um sig svipaðar tekjur og fái þá ef til vill saman 400.000 krónur á mánuði eftir skatta. Ég segi, vertu skuldlaus ef þú mögulega getur þegar þú hættir að vinna. Það er það sem gerir fólki erfiðast fyrir, að fara með skuldir inn í eftirlaunatímabilið af einhverjum ástæðum. Menn hafa kannski verið að hjálpa börnunum sínum, lent í áföllum eða eitthvað hefur komið uppá. Ef menn hafa skrifað uppá lán fyrir börnin sín og sitja uppi með það, þá eru þeir peningar farnir sem menn ætluðu að hafa sem varasjóð til efri áranna“, segir hann.

Vildi ekki hætta 67 ára

Ástbjörn segir að þeir sem hafi verið opinberir starfsmenn séu áberandi betur settir. Opinberir stafsmenn haldi kannski 80% af sínum launum á meðan aðrir detti niður í 50%. Lífeyrissjóðirnir standi í dag undir um 65% lífeyrisgreiðslna í samfélaginu, en Tryggingastofnun 35% eða þar um bil. Þetta hlutfall muni breytast eftir því sem fólk hefur greitt lengur í lífeyrissjóð. Nauðsynlegt sé líka að hækka lífeyrisaldur. Það þurfi að hafa sveigjanleika í því hvenær fólk hætti að vinna. Sumir vilji hætta 65 eða 67 ára en aðrir seinna. „Ég hefði ekki viljað hætta 67 ára, ég var ekki tilbúinn í það og vann þar til ég var orðinn 71 árs. Ég vann síðustu 15 árin í Dómkirkjunni í Reykjavík og hefði getað verið lengur, þar sem starfsmenn í kirkjum eru ekki opinberir starfsmenn, það eru eingöngu prestarnir sem eru það“, segir hann.

Aðalfundur hjá eldri borgurum í Garðabæ

Aðalfundur hjá eldri borgurum í Garðabæ

Hvetur „yngri“ eldri borgara til að ganga í félögin

„Það hefur aldrei verið meira að gera eins og margir eldri borgara segja“ segir Ástbjörn um tímann eftir að hann hætti að vinna. „Kannski komast menn yfir minna, fara seinna á fætur. Mér þætti ömurlegt að setjast inn í stofu og lesa blöðin allan daginn“, segir hann. Hann var fljótlega kjörinn í stjórn Félags eldri borgara í bænum og hefur verið formaður þess í 5 ár. Hann hvetur „yngri“ eldri borgara til að ganga í félögin. „Það er alltaf að koma inn nýtt fólk. Það eru liðlega 1100 manns í félaginu í Garðabæ, sem er hátt í hlutfall af íbúunum. Við erum næst stærsta félagið í bænum á eftir Stjörnunni. Félagið stendur fyrir ýmiss konar starfsemi og segir Ástbjörn að leikfimi og sundleikfimi sé sérstaklega vinsæl.

Margir anda kolvitlaust

Ástbjörn hefur stundað Qi gong í rúman áratug og lærði hjá Gunnari Eyjólfssyni. Hann vildi endilega bjóða uppá þessar æfingar í félaginu í Garðabæ og núna er 25 manna hópur í Qi gong hjá honum sem mætir mjög vel. „Þetta er allra hluta vegna gott“, segir hann. „Ég lærði að anda uppá nýtt, en fólk kemur í svona hóp og andar kolvitlaust. Djúpöndun, hæg hreyfing og hugleiðsla eru uppistaðan í æfingunum. Ég fór ásamt hópi til Mallorca í september og menn mættu þar annan hvorn dag í Qi gong og fannst það mjög gott. Ég blessa þann dag, sem ég ákvað að læra þetta“.

Fæ sama viðmót og aðrir

Ástbjörn segist verða var við að það sé töluverður áhugi á kjörum eldra fólks. „Mér finnst það alls staðar þar sem maður bryddar uppá þessum málum. Fólk sýnir þessu áhuga, mér finnst það þar sem ég kem og þarf þjónustu. Ég fæ fulla þjónustu og sama viðmót og aðrir. Sumum finnst þeir finna fyrir tómlæti, en ég finn það ekki“. Ástbjörn segist koma oft inná Ísafold, hjúkrunarheimilið í Sjálandshverfinu og þar sé unnið frábært starf en margir þurfi stuðning. „Við Pálmi Ólason arkitekt og hljóðfæraleikari höfum farið þangað nokkrum sinnum og sungið með fólkinu“. Hann hvetur fólk til að bjóða fram krafta sína og segir það gefandi.

Byggðu lítil hús í þyrpingu

Ástbirni finnst vanta nýja hugsun varðandi þjónustu og húsnæðismál eldra fólks. „Það hlýtur að vera eitthvað annað en íbúðirnar hér í Sjálandinu og svo Hjúkrunarheimilið“, segir hann. „Finnst þér það ekki?“. Hann telur rétt að leita fyrirmynda í öðrum löndum og segir frá fólki sem hafi skoðað þessi mál í Hollandi. Þar hafi verið byggð lítil hús í þyrpingu, með aðstöðu til tómstunda . Hann bendir líka á velferðartæknina, sem geri fólki kleift að vera lengur heima. Það séu komin alls kyns tæki og tól til að fylgjast með því hvar fólk er statt íbúðinni sinni eða hvar það er á ferli.

Félagið hefur góða aðstöðu í Jónshúsi

Félagið hefur góða aðstöðu í Jónshúsi

Úr Kvosinni í Sjáland

Honum finnst Sjálandshverfið hafa tekist vel, en þar eru íbúðir ætlaðar eldra fólki eingöngu á Strikinu. Á 17.júní torgi, séu svo íbúðar ætlaðar fólki 55 ára og eldri. „Það eru engin önnur hús hér sérstaklega ætluð eldri borgurum. Samt hafa þeir flutt hingað í stórum stíl. Kannski er það nálægðin við félagsmiðstöðina í Jónshúsi“, segir hann. Sjálf bjuggu þau Elín í Tjarnargötunni í Kvosinni, þar sem hann sleit barnsskónum og voru upphaflega að leita sér að annarri íbúð í Reykjavík. Þeim gekk illa að finna húsnæði sem þau voru sátt við og þeim var bent á að skoða í Garðabæ. „Og okkur leist svo vel á þetta að við ákváðum að flytja“, segir hann og finnst hann ekkert of langt frá miðbænum.

Bæjarstjórinn sýnir sérstaka velvild

Ástbirni finnst þeir sem ráða í Garðabæ sýna málefnum eldri borgara skilning. „Við eigum mjög gott samstarf við bæjaryfirvöld. Boðleiðir eru stuttar og bæjarstjórinn hefur sýnt okkur sérstaka velvild. Það er víða verið að setja upp öldungaráð, en í Garðabæ hefur lengi verið fastanefnd hjá bænum um málefni eldri borgara.“ Formaður Félags eldri borgara hefur verið áheyrnarfulltrúi í nefndinni, en núna er Ástbjörn formaður hennar, enda var hann á lista Sjálfstæðisflokksins í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Hann segir að nú sé verið að móta stefnu í málefnum eldri borgra og tekið sé mið m.a af Reykjavík sem hafi sett fram góða stefnu í þessum málaflokki og sé núna að vinna að því að verða aldursvæn borg.

Prentari og matvörukaupmaður

Ástbjörn fæddist í Reykjavík og bjó á Bergstaðastræti til 12 ára aldurs. Hans leikvöllur voru Þingholtin, miðbærinn og höfnin, uns fjölskyldan flutti inní Kleppsholt. Hann lærði prentverk í Félagsprentsmiðjunni sem var á móti Gamla bíói og seinna í Kassagerðinni. „Ég vann við þetta þar til 1973, en þá gerðist ég matvörukaupmaður á Grettisgötunni og eftir það í Grindavík í 10 ár, en þá komum við aftur í bæinn.“ Elín kona hans var með verslun á Laugavegi og hann varð framkvæmdastjóri Gamla miðbæjarins um það leyti sem Kringlan var að opna og allt að hrynja í miðbænum. Síðan lá leiðin í fyrirtækið Ísspor og þaðan í Dómkirkjuna.

Elín og Ástbjörn á góðri stundu

Elín og Ástbjörn á góðri stundu

Koma fjölskyldunni fyrir

Elín átti tvær dætur þegar þau Ástbjörn giftu sig og saman eignuðust þau tvær dætur til viðbótar. „Við eigum samanlagt 10 barnabörn og 5 barnabarnabörn“ segir hann. En koma þau allri fjölskyldunni fyrir í íbúðinni á Sjálandinu, ef þau vilja halda boð? „Já, það sleppur“, segir Ástbjörn. Yngsta barnabarnið er fermt og hann segir að sambandið við þau snúist nú orðið aðallega um að „hitta þau og knúsa þau“. Félagsmál hafa lengi verið ær og kýr Ástbjarnar og í þau hefur hans frítími farið. Hann er kiwanismaður og var umdæmisstjóri hreyfingarinnar hér á landi. Hann gegndi líka stöðu Evrópuforseta Kiwanis árin 2003-2004.

Þarf eldri borgara með unga fólkinu

Ástbjörn er hrifinn af ungu kynslóðinni í dag og segir að unga fólkið hafi komið mjög vel fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins á dögunum. Þau séu alveg klár á hvað þau vilji. „Það er gott að hleypa þeim eitthvað að, þau þurfa að læra“, segir hann. „En það þarf eldri borgara á Alþingi með unga fólkinu. Ég er ekki viss um að það sé mikill skilningur á málefnum eldri borgara á þinginu. Ætli einhverjir flokkar séu tilbúnir að setja eldri borgara í eitt af 5 efstu sætunum á framboðslistunum?“ spyr hann og segir að það fari ekki hjá því að þeirra málefni verði mjög ofarlega á málefnalistunum í næstu kosningum“. Og Ástbjörn er ekki í vafa um að það sé langbest að eldra fólk beiti sér í sínum eigin flokki.

 

 

 

 

 

Ritstjórn desember 4, 2015 13:03