Vestur Íslendingarnir spítala- og elliheimilismatur

Árið 1928 hófst bygging Elliheimilisins Grundar við Hringbraut í Reykjavík. Þar var gert ráð fyrir plássi fyrir 70 manns, en áður hafði Grund verið til húsa á Kaplaskjólsvegi í húsi sem rúmaði 24 heimilismenn. Það þótti mikil bjartsýni að ráðast í svo stóra byggingu, segir í Heimilispóstinum frá því í október síðast liðnum, en Heimilispósturinn er blað Grundar, Áss í Hveragerði og Markar í Skeifunni í Reykjavík.  Margir spáðu því að byggingu Grundar myndi aldrei ljúka og að fyrirtækið yrði fljótt gjaldþrota.

Heimilispósturinn greinir jafnframt frá því að í árslok, árið 1928 hafi verið borin fram ósk um að byggingunni yrði hraðað eins og mögulegt væri til að hægt yrði að taka á móti Vestur-Íslendingum sem ætluðu að koma á Alþingishátíðina árið 1930. Þeir myndu greiða svo rausnarlega fyrir gistinguna að um munaði fyrir heimilið. Síðan segir í Heimilispóstinum.

Stjórnin gekk að þessu tilboði og allt var sett á fulla ferð til að heimilið yrði tilbúið þegar að þessu kæmi. Einn gárunginn meðal Vestur-Íslendinganna sagði:  „ Þeir búast ekki við ungu fólki né heilsugóðu héðan að vestan því þeir ætla að koma oss fyrir á elliheimili og sjúkrahúsi strax og vér stígum fæti á gamla landið“, en þetta sama ár var Landsspítalinn tekinn í notkun og hluti gestanna dvaldi þar“

Fyrstu heimilismennirnir fluttu inn á Grund í lok sumars árið 1930. Umskiptin voru mikil fyrir heimilisfólk að koma í nýja húsið og mátti oft heyra það á mæli þeirra sem fluttu, segir í Heimilispóstinum.

„Vistmaður frá gömlu Grund skoðaði húsið og sagði svo þegar heim kom : „Húsið er reisulegt og fjarska fínt, en ég tók samt eftir slæmum galla á húsinu, það er nær ómögulegt að rata þar út.

Margir höfðu á orði að húsið væri óþarflega fínt, því ritað var um það í blöðin og sagt að húsið væri svo vandað í alla staði að leitun væri að öðru eins elliheimili, jafnvel meðal stærri og ríkari þjóða, segir meðal annars í blaðinu.

Ritstjórn apríl 10, 2018 10:57