Við treystum loforðunum

Ellert B. Schram

Ellert B Schram formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni skrifar:

Æ, ég má til með að hafa formála, þegar ég sendi þessa kveðju til ykkar, kæru lesendur.

Þegar þetta er skrifað, horfi ég nefnilega á snjókomuna utan við gluggann, hvíta jörð og svo kíkir sólin á okkur, bak við skýin. Það rifjast upp fyrir mér hvað það var skemmtilegt að búa til snjóhús úr snjókögglum í garðinum forðum. Eða laumast út á götu og „teika“ aftan á bílunum. Eða draga fram skíðin og renna sér  í brekkunum. Og svo voru grafin göng í húsgrunnum og kastað snjóboltum í ljósastaurana. Ég deili þessum æskuminningum mínum með ykkur, kæru jafnaldrar og býð vetrarveðrið velkomið.

Já veturinn á sér sinn stað í lífinu og árunum og hann er náttúran eins og sumarið. Kemur og fer. Eins og allt annað, sem okkur býðst,  meðan okkur er ennþá gefið að vera til. Sólargeislar brjótast fram úr kafaldinu, rétt eins og björtu hliðarnar á ferð okkar hér á jörðinni, sem býður okkur tilbreytingu. Vetur, sumar, vor og haust.

Það eru forréttindi að fá að lifa og njóta náttúrunnar, veðursins og áranna, sem skarta hvítum snjónum og grænum jarðvegi til skiptis, hita og frosti, og fer aldrei í manngreinarálit, þegar hún lætur til sín taka.

Þessi formáli hefur þann tilgang að opna augu okkar fyrir því, að það er svo margt sem við búum við, án þess að við ráðum við það, en við reynum að aðlaga okkur að umhverfinu, veðurfarinu og duttlungum náttúrunnar.

Manneskjan er nefnilega, sem betur fer, fær um  að bregðast við, takast á og stjórna samfélaginu, temja sér viðleitni og viðbrögð, sem við getum ráðið við. Byggt hús, lært af sögunni, tileinkað okkur hugmyndir um samstarf, aðgerðir, vinnubrögð og hugsunarhátt, sem gerir lífið eftirsóknarvert. Menningu, menntun og mannúð.

Erum við ekki öll, meira og minna, á þeim stað?

Okkur gefst tækifæri, með lýðræðislegum kosningum, að velja fólk og flokka til að búa til og fylgja eftir þeim kröfum og þörfum sem samfélagið  kallar eftir. Og ekki vantar fólk sem vill taka þátt í uppbyggingu og framkvæmd í samfélagi, þar sem öllum getur liðið vel. Þar sem jöfnuður, velferð og hagsæld á að á að njóta sín. Ég er í engum vafa um að þeir stjórnmálaflokkar og frambjóðendur allra flokka, sem nú eiga fulltrúa á Alþingi, vilja þjóðinni vel. Hvað eldri borgara snertir stóð ekki á loforðum allra frambjóðenda, allra flokka, að þeir muni sinna hagsmunum elstu kynslóðarinnar, ef þeir komast til valda.

Þetta er í rauninni í fyrsta skipti í Alþingiskosningum, þar sem hagur eldri borgara og bætt kjör þeirra, voru ofarlega ef ekki efst í málefnayfirlýsingum frambjóðenda sem kosningu náðu. Við bíðum nú spennt eftir efndunum. Í almannatryggingum, heilsueflingu, þjónustu, húsnæði og svo framvegis. Það er af mörgu að taka.

Við stjórnum ekki veðrinu og vetrinum en við stöndum af okkur hvorutveggja, enda á þjóð á hjara veraldarinnar að vera tilbúin að standa af sér storma og snjókomur, meira að segja að njóta þeirra. Oftast. Veturinn er genginn í garð og ný ríkisstjórn á leiðinni. Tökum því fagnandi, treystum loforðunum.

Með kveðju

Ellert B Schram

 

Ellert B. Schram nóvember 12, 2017 11:41