Amma gat allt nema gengið niður stiga


Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, flytur fyrirlesturinn „Amma gat allt nema gengið niður stiga“.  Fyrirlesturinn verður í Öskju, stofu 132 þann 8. maí á milli 12 og 13.00

Silja Bára fjallar um móðurömmu sína, Sigurbjörgu Helgadóttur, húsmóður í Ólafsfirði. Bogga, eins og hún var kölluð, fæddist í Ólafsfirði árið 1919 og lést árið 2005. Hún var næstelst tólf systkina og er henni lýst sem víðsýnni, ákveðinni og fróðleiksfúsri. Með aðstoð systra sinna aflaði hún sér fjár til að ganga í kvennaskóla á Laugalandi í Eyjafirði og síðar réði hún sér kennara til að læra erlend tungumál.

Bogga starfaði síðan um skeið á Akureyri en flutti aftur til Ólafsfjarðar þar sem hún gekk að eiga Brynjólf Sveinsson, kaupmann og síðar stöðvarstjóra Pósts og síma þar í bæ og eignaðist með honum fjögur börn. Árið 1964 fékk Bogga heilablóðfall og lamaðist hægra megin á líkamanum. Hún bjó við þá fötlun og mikla skerðingu lífsgæða það sem eftir var ævinnar, þótt hún gæti í augum barnabarnanna allt nema gengið niður stiga. Í erindinu skoðar Silja Bára lífssögu Boggu í ljósi þessarar reynslu.

Fyrirlesturinn er sá síðasti á vormisseri í fyrirlestraröðinni „Margar myndir ömmu“ sem RIKK heldur í samstarfi við Þjóðminjasafnið og styrkt er af framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Ritstjórn maí 7, 2015 13:40