Danir á Íslandi

Í tilefni af útkomu bókarinnar Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet verður haldið málþing í fyrirlestrasal Landsbókasafns Íslands í Þjóðarbókhlöðu, 2. hæð, fimmtudaginn 24. september kl. 16.00–17:00.

Dagskrá málþingsins:

  • 16:00–16:15. Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet. Ritstjórar bókarinnar, Auður Hauksdóttir prófessor í dönsku og Guðmundur Jónsson prófessor í sagnfræði skýra frá tilurð hennar og efni.
  • 16:15–16:30. Íris Ellenberger, sagnfræðingur: „Og upp kom ég með hatt og hanska.“ Dönsk tilvera á Íslandi um miðja 20. öld“
  • 16:30–16:45. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor: Frá jóskri sveit á Sólvallagötuna. Minningabrot um frú Ellen Björnsson
  • 16:45–17:00. Björg Sørensen, listakona: Danirnir á Selfossi

Fundarstjóri er Sigurður Pétursson, lektor emeritus. Málþingið er opið öllum og að lokinni dagskrá býður danska sendiráðið upp á léttar veitingar.

Í bókinni Gullfoss. Mødet mellem dansk og islandsk kultur i 1900-tallet er kastljósinu beint að Dönum búsettum á Íslandi og dönskum áhrifum á íslenskt samfélag og menningu á 20. öld. Fjallað er um hvernig Danir aðlöguðust íslensku mannlífi, hvernig þeir héldu sínum menningareinkennum og höfðu áhrif á íslenska menningu, viðskiptalíf og samfélag. Einnig er fjallað um áhrif dönskunnar á Íslandi og málið sem Danirnir töluðu. Þá hefur bókin að geyma grein um hvernig Ísland birtist í skrifum danskra rithöfunda.

Bókin er afrakstur af rannsóknasamstarfi stofnana í Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla. Í henni eru níu greinar eftir sjö höfunda: Auði Hauksdóttur, Christina Folke Ax, Guðmund Jónsson, Írisi Ellenberger, Erik Skyum-Nielsen, Sigurð Pétursson og Þóru Björk Hjartardóttur. Formála að bókinni rita Vigdís Finnbogadóttir og Jørn Lund, en auk þess er ítarlegur yfirlitskafli um rannsóknir á samskiptasögu landanna.

Ritstjórar bókarinnar eru Auður Hauksdóttir, Erik Skyum-Nielsen og Guðmundur Jónsson.

Ritstjórn september 23, 2015 17:00