Dönsk samtímalist í tilefni fullveldisins – Listasafn Reykjavíkur

Tak i lige måde: Samtímalist frá Danmörku

Árið 2018 eru 100 ár liðin frá því að Ísland hlaut fullveldi sem markaði veg landsins til sjálfstæðis undan dönskum yfirráðum. Listasafn Reykjavíkur minnist þessara tímamóta með því að bjóða valinkunnum dönskum samtímalistamönnum að sýna í safninu. Mikil gerjun á sér stað í danskri myndlist, ekki síst í ljósi breyttrar heimsmyndar í pólitísku og samfélagslegu tilliti. Þær hræringar endurspeglast í allri listsköpun og gestir fá innsýn í þær í nýjum verkum frá frændum okkar og fyrrum herraþjóð Íslendinga.

Dönsku listamennirnir eru Jeannette Ehlers, Jesper Just, John Kørner og Tinne Zenner.

Listasafn Reykjavíkur minnist aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands í ár með því að bjóða myndlistarmönnum frá Danmörku að sýna í safninu. Þessi fyrrum herraþjóð Íslendinga á sér langa sögu sem nýlenduveldi og heyra Grænland og Færeyjar enn undir konungsríkið. Þá er Danmörk í dag fjölmenningarsamfélag þar sem íbúar með ólíkan bakgrunn búa saman. Margir danskir listamenn endurspegla í verkum sínum þessa þætti í sögu þjóðarinnar og samtíma. Viðfangsefni þeirra tengjast meðal annars hugmyndum um síð-nýlendustefnu, fólksflutninga, sjálfsmynd þjóða og landamæri. Nú þegar Íslendingar minnast þess að það varð á sínum tíma frjálst undan stjórn Danmerkur býðst sérstakt tækifæri til þess að gefa þessum krefjandi málefnum gaum.

Ný verk tveggja listamanna á sýningunni gefa hugmynd um ólíka nálgun að viðfangsefninu. Jesper Just dvelur við landamærin á milli Bandaríkjanna og Mexíkó í verki sínu frá árinu 2017, Continuous Monuments (Interpassivities). Nýr forseti Bandaríkjanna varpaði sérstöku ljósi á landamærin með hugmyndum sínum um byggingu múrs til að stemma stigu við fólksflutningum. Í myndbandsverki Jespers sjáum við Kim Gordon, bassaleikarann úr hinni goðsagnakenndu hljómsveit Sonic Youth, rölta meðfram landamæragirðingu. Með spýtu í hendi slær hún í girðinguna og breytir henni í hálfgert hljóðfæri. Hlutverki þessa pólitíska valdatækis er breytt með græskulausu gamni og þannig verður hugmyndin um þessa griðingu í miðri eyðimörk sem aðskilur mannfólk nánast hjákátleg.

Í nýju myndbandsverki Tinne Zenner, Nutsigassat (Translations), frá 2018, er hún stödd á Grænlandi. Við fáum innsýn í starfsemi fólks í bænum Nuuk og horft er til snævi þakinna fjalla og jökla allt um kring. Yfir kvikmyndinni er fluttur texti á grænlensku sem greinir frá því hvernig Danir tóku upp á því að nefna ýmsa staði á Grænlandi upp á dönsku þegar valdatíð þeirra hófst í landinu. Þannig fengu náttúrufyrirbæri og staðir ný nöfn sem Grænlendingar þekktu undir sínum eigin heitum. Sum hver eru langsótt, eins og að nefna fjall “Söðul” því hestar voru aldrei á Grænlandi og nafnið því algjörlega úr samhengi við menningu svæðisins. Texti verksins er þýddur með enskum texta þar sem orðalag og -skipan er nákvæmlega eins og á grænlensku. Þannig opnast nýr skilningur á virkni þess tungumáls fyrir þá sem skilja það ekki.

Verk Tinne og Jespers ásamt öðrum verkum á sýningunni Tak i lige måde ávarpa knýjandi málefni bæði í sögulegu ljósi sem og í ljósi samtímans. Hugmyndir um sjálfstæði, þjóðerni, ímynd, frelsi og fullveldi kallast á við heimsmynd í stöðugri endurskoðun. Vestræn ríkji þurfa að endurskoða afstöðu sína til og hlutverk gagnvart öðrum heimshlutum og þjóðum þeirra. Þetta hafa Danir þurft að gera með tilliti til nýlendustefnu sinnar og um leið eru mál líðandi stundar sem varðar stöðu þeirra í Evrópu mjög ofarlega á dagskrá í allri umræðu. Í listsköpun þessara dönsku myndlistarmanna er áberandi sú viðleitni að greina og fjalla um þessi málefni. Listamenn vísa í eigin reynsluheim og fjölskyldusögu eða takast á hendur heimildavinnu, ferðalög og rannsóknir. Hvað er frelsi, fullveldi, sjálfstæði og sjálfsmynd? Hvernig ávinnur einstaklingur eða samfélag sér þessa hluti? Hverjar eru áskoranir okkar þegar kemur að þeim í dag? Hvaða leiðir hefur myndlist til að takast á við þessi málefni?

Ritstjórn apríl 13, 2018 14:52