Dóttirin, bóndinn og slaghörpuleikarinn endurfluttur vegna fjölda áskorana.

VEGNA FJÖLDA ÁSKORANA verður fléttuleikurinn Dóttirin, bóndinn og slaghörpuleikarinn eftir Ingibjörgu Hjartardóttur endurfluttur í Iðnó mánudagskvöldið 14. mars kl 20. Leikurinn er fléttaður saman úr einleikjum sem sýndir voru í Þjóðleikhúskjallaranum á vordögum 1995. Einleikirnir eru byggðir á frásögnum þriggja íslenskra samtímakvenna. Þetta eru þrjár ólíkar frásagnir, en það sem er sameiginlegt með þeim er að konurnar eru allar á svipuðum aldri, og aldar upp við svipuð skilyrði í íslenskum harðneskju hversdagsleika.

Þær láta hugann reika og horfa yfir farinn veg. Segja frá góðum hlutum og vondum, gleði og sorgum, meta stöðu sína í núinu og reyna að sjá hvað framtíðin muni bjóða þeim. í hverjum þætti verður það svo þungamiðjan, brennipunkturinn, þegar frásögnin fer að snúast um ákveðna atburði, sáran missi, sem þær allar standa frammi fyrir og verða að horfast í augu við.

Leikkonurnar Guðrún María Bjarnadóttir (dóttirin), Guðbjörg Thoroddsen (bóndinn) og Elva Ósk Ólafsdóttir (slaghörpuleikarinn), spila á allan tilfinningaskalann í túlkun á þessum brotabrotum úr lífi íslensku kvennanna þriggja. Í upphaflegu sýningunni fór Ingrid Jónsdóttir með hlutverk Slaghörpuleikarans.

Leikstjóri er sem fyrr Sigríður Margrét Guðmundsdóttir. Hér er um sviðsettan leiklestur að ræða.

Úr dómum frá 1995:

… Og allar fara þær [leikkonurnar] á kostum. Persónusköpun þeirra er skýr og sterk; hreyfíngar, svipbrigði og raddbeiting unnin af stakri nákvæmni og konurnar þrjár birtast manni ljóslifandi og sterkar í öllum sínum vanmætti. Umbúnaður sýningarinnar er einfaldur, sem og búningar og lýsing. Hver þáttur byggir á texta og reynir virkilega á hæfni hverrar leikkonu til að vinna úr honum án þess að missa athygli áhorfenda. Þar reynir virkilega á leikstjórann, sem hefur ekkert annað í höndum en mikinn texta og eina leikkonu í senn. Sú vinna er sérlega vel unnin og ber vott um næmni og skilning á þeim möguleikum sem leikarinn býr yfir. Þetta er sterk sýning og áhrifamikil og tvímælalaust ein sú áhugaverðasta sem er á fjölum leikhúsanna þessa dagana. Og ekki bara vegna þess að hún fjallar um konur, heldur vegna þess að hún fjallar um manneskjur. (Súsanna Svavarsdóttir, Morgunblaðið 10. feb. 1995)

Frábært kvennaleikhús….. Þetta var óvenju ánægjuleg stund í leikhúsi, þótt viðfangsefni einþáttunganna væru ekki af léttasta tagi. Þ að hvarflar að manni að þarna sé komin góð leið fyrir höfunda að koma verkum sínum á framfæri og leikkonur að spreyta sig á spennandi og krefjandi hlutverkum… Þær [leikkonurnar] fóru allar mjög vel meö hlutverk sín og var ákaflega ánægjulegt að sjá þær í svo bitastæöum hlutverkum. Leikstjórn varí höndum Sigríðar Margrétar Guðmundsdóttur, og hefur greinilega tekist með ágætum. (Vera – Sonja B. Jónsdóttir og Vala S. Valdimarsdóttir.)

 

Ritstjórn mars 11, 2016 16:11