Gamlinginn 2015 Tónleikar í kvöld

Tónleikar haldnir í Lindakirkju í Kópavogi 11. mars kl. 20:00 

Til styrktar orlofsdvöl aldraðra á Löngumýri í Skagafirði

 

Síðast liðin 11 ár hefur íslenska Þjóðkirkjan staðið fyrir orlofsbúðum eldri borgara á Löngumýri í Skagafirði. Gestir okkar, sem koma af landinu öllu, eru frá sextug og uppúr. Á Löngumýri er mjög góð aðstaða, heitir pottar, fallegar gönguleiðir og allt aðgengi mjög gott. Fjölbreytt og skemmtileg dagskrá er í boði alla dvalardagana að ógleymdu kjarngóðu skagfirsku fæði. Þetta er frábært verkefni sem alltof fáir vita af.

Dagskráin okkar er uppbyggð þannig að allir geti verið með og allir fái eitthvað fyrir sinn snúð! Dagurinn hefst á morgunmat. Eftir hann er dagurinn þannig: Helgistund, morgunleikfimi, létt gönguferð, frjáls tími, hádegisverður, hvíld, samvera í sal, miðdegishnallþórur, samvera í setustofu, frjáls tími, kvöldverður, fréttir og veður og svo ljúkum við formlegri dagskrá dagsins á kvöldskemmtun með skagfirskum skemmtikröftum.

Það er einnig fastur liður að fara með hópana í menningarferð um nágrenni skagafjarðar. Komandi sumar ætlum við að keyra norður á Dalvík og gera það margt skemmtilegt.

En að fjáröflunartónleikunum. Flestir gesta okkar eru komnir á ellilífeyri og af honum verður enginn feitur. Við það bætist að margir hafa litlar eða engar greiðslur úr lífeyrissjóðum. Til að koma í veg fyrir fjárhagslega mismunun legg ég mig alla fram um að afla styrkja til að draga úr dvalarkostnaði gesta minna. Það geri ég m.a. með því að halda fjáröflunartónleika og þá komum við að  GAMLINGJANUM 2015.

Listamennirnir sem fram koma á GAMLINGJANUM í ár eru: Áslaug Helga Hálfdánardóttir, Gissur Páll Gissurarson, Guðrún Gunnarsdóttir og Páll Rósinkranz. Gestasöngvarar tónleikanna eru Löngumýrargengið. Þau koma að sjálfsögðu úr Skagafirði, en það eru þau Gunnar Rögnvaldsson, Íris Olga Lúðvíksdóttir, Jón Hallur Ingólfsson og Sigvaldi Gunnarsson.

Tónlistarstjóri tónleikanna er Óskar Einarsson.

Ritstjórn mars 11, 2015 09:52