Ganga um slóðir Tímaþjófsins kostar ekki neitt

Tímaþjófurinn | Bókmenntaganga

Menningarhús Grófinni, laugardag 22. apríl kl. 14.30 – 16.00 

Borgarbókasafnið og Þjóðleikhúsið bjóða til bókmenntagöngu um söguslóðir skáldsögunnar Tímaþjófsins eftir Steinunni Sigurðardóttur. Tímaþjófurinn kom fyrst út árið 1986 og sló þá í gegn, en Þjóðleikhúsið sýnir nú leikrit í uppsetningu Unu Þorleifsdóttur, byggt á bókinni. Göngunni lýkur í Kassanum, þar sem gestir fá innsýn í heiminn handan tjaldsins, og Nína Dögg Filippusdóttir leikkona les úr bókinni.

Hin vel ættaða, sjálfsörugga og glæsilega Alda Oddsdóttir Ívarsen, tungumálakennari við Menntaskólann í Reykjavík, sem ætíð hefur boðið heiminum byrginn, reynist varnarlaus þegar ástin loks grípur hana fyrir alvöru, óvænt og miskunnarlaust. Tímaþjófurinn er skáldsaga um leynilegt ástarævintýri, höfnun og missi, og þá sársaukafullu þráhyggju sem ást í meinum getur orðið.

Gangan hefst við Borgarbókasafnið í Grófinni. Gengið verður um söguslóðir Tímaþjófsins og lesið úr verkinu, en áð verður í Hólavallakirkjugarði, Dómkirkjunni og við Menntaskólann í Reykjavík. Steinunn Sigurðardóttir slæst sjálf í hópinn og spjallar við göngufólk. Göngunni lýkur með heimsókn í Þjóðleikhúsið, sem opnar Kassann fyrir göngufólki. Þar taka Una Þorleifsdóttir, leikstjóri sýningarinnar, Melkorka Tekla Ólafsdóttir, höfundur leikgerðar og Nína Dögg Filippusdóttir, leikkona, á móti fólki. Nína Dögg les úr bókinni og skyggnst verður inn í ferðalag Öldu af síðum skáldsögu og inn í sviðsljósin.

Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir. Kaffi og kleinur gegn vægu gjaldi.

Nánari upplýsingar veitir: 
Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri, sunna.dis.masdottir@reykjavik.is, s. 411 6109

Ritstjórn apríl 21, 2017 12:28