Hvernig undirbúum við samfélagið til að mæta þörfum aldraðra? – fundur

Næsti samtalsfundur í fundarröð Bjartrar framtíðar um málefni líðandi stundar er um málefni eldri borgara. Yfirskrift fundarins er „Hvernig getum við sem best undirbúið samfélagið til að mæta þörfum aldraðra varðandi líkamlegar, andlegar og félagslegar þarfir?“

Fundurinn er á vegum málefnahóps um heilbrigðismál og eru allir velkomnir í samtal og fræðslu um málefni eldri borgara. Dr. Ingibjörg Hjaltadóttir, sérfræðingur í öldrunarhjúkrun ræðir málin og svarar spurningum.

Fundurinn verður haldinn í Skátaheimili Hraunbúa í Hafnarfirði miðvikudaginn 18. mars kl. 20-21.30.

Um Ingibjörgu:
Dr. Ingibjörg hefur unnið að rannsóknum á sviði öldrunarhjúkrunar og þverfaglegum rannsóknum á sviði öldrunarfræða. Í rannsóknum sínum hefur Ingibjörg m.a. skoðað lífsgæði aldraðra á hjúkrunarheimilum, mönnunarmódel í öldrunarhjúkrun, gæði í öldrunarhjúkrun, næringarástand aldraðara á sjúkrahúsi og meðferð með aðstoð dýra. Ingibjörg hefur tekið þátt í rannsóknum á RAI-mælitækjum (Resident Assessment Instrument) sem notaðir eru á hjúkrunarheimilum, öldrunarlækningadeildum, í líknarþjónustu og heimaþjónustu. Einnig hefur hún tekið þátt í norrænu rannsóknarsamstarfi með notkun þessara mælitækja. Rannsóknir Ingibjargar hafa margar vakið töluverða athygli og fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum.

Ingibjörg lauk BS prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands 1983 og MS prófi frá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands árið 2001. Hún stundaði doktorsnám við heilbrigðisvísindadeild læknadeildar Háskólans í Lundi og varði þar doktorsverkefni sitt 27. janúar 2012. Doktorsverkefnið heitir Gæði umönnunar, þróun á heilsufari, færni og lifun á íslenskum hjúkrunarheimilum á árunum 1996-2009. Ingibjörg hefur lengst af starfað á Landspítalanum en var lektor við Hjúkrunarfræðideild HÍ frá 2003 til 2010. Hún starfar nú á lyflækningasviði Landspítala auk þess að sinna ýmsum sérverkefnum, meðal annars fyrir landlæknisembættið.

Ritstjórn mars 12, 2015 10:06