Íslenskan í ólgusjó – fyrirlestur á vegum U3A

 

þriðjudaginn 28. nóvember  kl 17:15 í Hæðargarði 31

 

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor mun fara yfir stöðuna hvað varðar tungumálið okkar fagra og þann ólgusjó sem það siglir þessa dagana.

Undanfarinn áratug hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi vegna ferðamannastraums og mikillar fjölgunar erlends starfsfólks í ýmsum atvinnugreinum. Á sama tíma hefur orðið tæknibylting með tilkomu snjallsíma sem valda því að margt fólk er nánast sítengt við netið. Hvort tveggja gæti haft mikil áhrif á stöðu og framtíð íslenskunnar.

Í þessu erindi verður rætt um hugsanleg áhrif samfélags- og tæknibreytinga á tungumálið og umhverfi þess, m.a. á máltöku barna, enskunotkun, málbreytingar o.fl. Sagt verður frá viðamikilli rannsókn á stöðu íslensku gagnvart ensku sem nú stendur yfir, og gerð grein fyrir vísbendingum sem frumniðurstöður úr einstökum þáttum rannsóknarinnar gefa.

Allir eru velkomnir, en nauðsynlegt er að skrá sig.

SKRÁ MIG HÉR

Aðgangseyrir, 500 krónur, greiðist í reiðufé við innganginn.

Eiríkur lauk cand.mag.-prófi í íslenskri málfræði haustið 1982. Hann hefur kennt og stundað rannsóknir við HÍ frá 1981, þar af frá 1993 sem prófessor í íslenskri málfræði.

Eftir virkan rannsóknaferil, einkum í íslenskri setningafræði sneri Eirikur sér að máltækni um aldamótin og hefur unnið að rannsóknum og þróunarstarfi á því sviði í innlendu og erlendu samstarfi. Hann hefur notið fjölmargra rannsóknarstyrkja og gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, á innlendum, norrænum og evrópskum vettvangi, m.a. styrkja frá ESB og Rannsóknasjóði og stýrir nú, ásamt Sigríði Sigurjónsdóttur prófessor, öndvegisverkefninu “Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis” sem lýkur 2018. Hann kom m.a. að þróun íslensks talgervils fyrir Blindrafélagið og íslensks talgreinis sem Máltæknisetur, Háskólinn í Reykjavík og Google stóðu að.

Undanfarin ár hefur starf hans mikið snúist um að reka áróður fyrir íslenskri máltækni í þágu framtíðar íslenskunnar og hefur hann varið miklum tíma og orku á undanförnum árum í að reyna að vekja stjórnvöld og almenning til vitundar um mikilvægi þess að sinna þessu sviði, skrifað margar greinar, flutt fjölda erinda, og starfað í ýmsum nefndum sem þetta varða.

 

Ritstjórn nóvember 26, 2017 14:00