Jóhanna Ólafsdóttir – Ljósmyndir

Í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15,  gefur að líta úrval verka eftir Jóhönnu Ólafsdóttur ljósmyndara en hún er ein af fáum íslenskum kvenljósmyndurum af sinni kynslóð sem starfað hefur allan sinn feril sem ljósmyndari. Hún tók þátt í samsýningum á árunum 1980 og 1987 og árin 2012 og 2014 voru verk hennar sýnd á yfirlitssýningum um íslenska ljósmyndasögu þar sem þau vöktu verðskuldaða athygli. Þetta er fyrsta einkasýning Jóhönnu hér á landi og fylgir henni vegleg sýningarskrá. Jóhanna er afar næmur mannlífsljósmyndari eins og myndasyrpur hennar af hversdagslegum viðburðum, svo sem mannlífsmyndir úr miðbæ Reykjavíkur og fólki að sækja póst í pósthólf, bera glöggt vitni. Fegurð mannlífsins sem birtist þar sem enginn býst við henni, heillar Jóhönnu fremur en það sem er upphafið.

 

Ritstjórn mars 6, 2017 13:57