Jóhanna Þórhallsdóttir með myndlistarsýningu

Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona og myndlistarmaður opnar málverkasýningu í ARTgallery GÁTT, fyrrum Anarkíu að Hamraborg 3a í Kópavogi í dag, fimmtudaginn 20. júlí kl 17-19. Með henni á sýningunni eru Monique Becker og Hugo Mayer og er yfirskrift hennar ÞREFÖLD ORKA eða 3x KRAFT. Þremenningarnir kynntust  í Þýskalandi í námi hjá Markúsi Lüpertz fyrrum rektor í Myndlistarakademíunni í Dusseldorf. Markús er með þekktustu málurum Þýsaklands, en hann er líka frægur fyrir höggmyndir sínar og jazz píanóleik.

Monique kemur frá Luxemborg en hún hefur einnig lært myndlist hjá Prof. Hermann Nitsch sem er okkur Íslendingum að góðu kunnur, en hann stafaði m.a. með Dieter Roth.  Monique hefur haldið einkasýningar í Luxemborg, Belígu, Þýskalandi og víðar.

Hugo er fæddur í Tübingen í Þýskalandi en er nú búsettur í Berlín og er með vinnustofu þar. Á árum áðum stúderaði hann í  Hamborg hjá Prof. Matthias Lehnhard og Prof. Kurd Alsleben Hann hætti um tíma í málverkinu og fór í það sem kallast á ensku “New Media”, einskonar tölvu-list,  en fór svo aftur að mála, þar sem hann saknaði alltaf lyktarinnar úr málverkinu.

Jóhanna hefur á síðustu árin verið í námi hjá Lüpertz en áður hjá Söru Vilbergsdóttur,  Bjarna Sigurbjörnssyni og fleirum.

Þetta er í fyrsta sinn sem þau Monique og Hugo sýna verk sín á Íslandi og  koma til landsins.

Á sýningunni eru 30 málverk flest unnin á þessu ári  Léttar veitingar og tónlist verða á opnuninni. Sýningin er opin alla daga frá kl 15-18 og stendur til 30. júlí

 

Ritstjórn júlí 20, 2017 12:05