Klarínettur og söngur á háskólatónleikum

 

Chalumeaux-tríóið og Hanna Dóra Sturludóttir, messósópran, flytja verk eftir Pál P. Pálsson, Hjálmar H. Ragnarsson, Igor Stravinsky, J.S.Bach/H.Birthwistle og nýtt verk eftir Jónas Tómasson (frumflutningur) á háskólatónleikum þann 17. febrúar næst komandi.  Tónleikarnir verða í Hátíðasal Háskólans sem er Aðalbyggingunni.
Chalumeaux-tríóið skipa Ármann Helgason, Kjartan Óskarsson og Sigurður Ingvi Snorrason sem leika allir á ýmis hljóðfæri úr klarínettufjölskyldunni.
Enginn aðgangseyrir er að tónleikunum og allir eru velkomnir.
Nánari upplýsingar um tónskáldið, verkin og flytjendur:

Hjálmar H. Ragnarsson (1952) samdi Mörsug, tríó fyrir þrjár B-klarínettur, árið 1981 að beiðni Musica Nova og var verkið frumflutt það sama ár.

Jónas Tómasson (1946) segir um nýtt verk sitt sem frumflutt verður hér:

Í nóvember 2014 fluttu Hanna Dóra Sturludóttir og Chalumeaux- tríóið Via Crucis /Stabat        Mater sem tengist föstudeginum langa og   fékk ég þá hugmynd að semja verk sem tengdist     jólun­um. Ég valdi Maríuversið Alma Redemptoris Mater – sennilega eftir 11. aldar skáldið    Hermann Contractus (Hermann kroppinbakur?). Ætli ég fari ekki að semja fleiri       Maríusöngva – eitthvað sem tengist boðunardegi Maríu næst – hver veit?

Páll P. Pálsson (1928) samdi Trio trionfante fyrir Chalumeaux-tríóið 2002. Áður hafði hann samið verk fyrir tríóið og söngrödd við ljóð eftir G. Trakl.

Breska tónskáldið og klarínettuleikarinn, Sir Harrison Birthwistle (1934), umritaði 1975 fimm kóralforspil fyrir söngrödd og þrjú klarínettuhljóðfæri eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750). Hér heyrum við fjögur þeirra.

Igor Stravinsky (1882-1975) samdi Vögguvísur kattarins árið 1915, þá búsettur í Sviss. Tónsmíðin byggist á þjóðlögum sem finna má í safni rúss­­­neska þjóðlagasafnarans, Pyotr Kireevsky. Verkið var fyrst flutt 1918 og þá með píanóundirleik. Gerðin sem við heyrum hér var frum­flutt á tónleikum sem Arnold Schön­berg stóð fyrir í Vín 6. júní 1919. Oftast eru vögguvísur kattarins sungnar á rússnesku en nú eru þær á þýsku.

Chalumeaux-tríóið var stofnað árið 1990 af klarínettuleikurunum Kjartani Óskars­syni, Óskari Ingólfssyni og Sigurði Ingva Snorrasyni. Á verkefna­skrá tríósins eru verk sem spanna alla sögu klarínettu­hljóðfæranna eða frá um 1730. Tríóið leikur upphafleg verk eftir tónskáld eins og Mozart en jafnframt hafa þeir Kjartan og Sigurður umritað fjölda verka fyrir tríóið. Meðal þessara verka eru fjölmargar aríur úr óperum eftir Mozart og Salieri. Þessi verk hefur tríóið flutt ásamt þremur söngvurum. Þá hafa mörg íslensk tónskáld skrifað verk fyrir tríóið.

Ritstjórn febrúar 12, 2016 13:15