Leikhúskaffi í kvöld í Gerðubergi

Í Leikhúskaffi Gerðubergs  í kvöld, miðvikudaginn 25. febrúar,  mun Símon Birgisson, dramatúrg Þjóðleikhússins, stýra dagskrá um leikverkið Sjálfstætt fólk sem sýnt er um þessar mundir. Með Símoni verða Atli Rafn Sigurðsson leikari, sem leikur sjálfan Bjart í Sumarhúsum, og Hlín Agnarsdóttir leiklistargagnrýnandi.

Uppsetning Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki hefur vakið mikla athygli. Leikstjórinn Þorleifur Örn Arnarsson og aðrir aðstandendur höfðu áður hlotið mikið lof fyrir uppsetninguna á Englum alheimsins árið 2013. Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness er ein af eftirlætisbókum þjóðarinnar og hefur nokkrum sinnum verið sett upp í íslensku leikhúsi. Nú er enn á ný tekist á við þetta magnaða verk í uppsetningu Þjóðleikhússins.

Í Leikhúskaffi Gerðubergs gefst áhorfendum kostur á að kafa dýpra í verkið, uppsetninguna og tengsl skáldsögunnar og leikritsins. Áhorfendur fá að heyra um upplifun leikarans og gagnrýnandans og spyrja aðstandendur sýningarinnar  spurninga yfir notalegum kaffibolla á nýja kaffihúsinu á efri hæð Gerðubergs.

Leikhúskaffið er samstarfsverkefni Borgarbókasafnsins og Þjóðleikhússins og fer fram fjórum sinnum á vormisseri 2015.  Það hefst klukkan 20:00

Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Næsta Leikhúskaffi fer fram 25. mars og þá verður fjallað um Segulsvið, nýtt leikverk eftir Sigurð Pálsson.

 

Ritstjórn febrúar 24, 2015 17:28