Lestur er bestur – fyrir lýðræðið

Bókasafnsdagurinn verður haldinn hátíðlegur föstudaginn 8.september 2017. Í tilefni dagsins munu bókasöfn af öllum gerðum víðsvegar um landið bjóða upp á sérstaka dagskrá í tilefni dagsins. Bókasafnsdagurinn í ár er tileinkaður lýðræði og hlutverki bókasafna í lýðræðissamfélögum. Markmið bókaasfnsdagsins er er tvíþætt:

 1. Að vekja athygli á mikilvægi bókasafna í lýðræðisamfélagi.
 2. Vera hátíðsdagur starfsmanna safnanna.

Yfirlýsing Menningar- og vísindastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Unesco) um Almenningsbókasöfn

Grundvallargildi mannsins eru frelsi, velmegun og framfarir samfélags og einstaklinga. Þessum gildum verður aðeins náð ef velupplýstir borgarar nota lýðræðislegan rétt sinn og taka virkan þátt í samfélaginu. Virk þátttaka og þróun lýðræðis byggir á fullnægjandi menntun sem og frjálsum og ótakmörkuðum aðgangi að þekkingu, skoðunum, menningu og upplýsingum.

Almenningsbókasafn er hlið til þekkingar á hverjum stað. Það skapar frumskilyrði til ævimenntunar, sjálfstæðrar ákvarðanatöku og menningarþroska einstaklinga og þjóðfélagshópa.

Yfirlýsing þessi staðfestir trú UNESCO á almenningsbókasafni sem virku tæki til menntunar, menningar og upplýsinga og sem meginafli til að rækta frið og andlega velferð í hugum allra manna.

UNESCO hvetur því ríki og sveitarstjórnir til að styðja og taka virkan þátt í eflingu almenningsbókasafna.

Alþjóðlegur dagur læsis.

Bókasafnsdagurinn er haldinn á alþjóðlegum degi læsis, 8. september. Sameinuðu þjóðirnar gerðu þennan dag að alþjóðadegi læsis árið 1965. Á þessum degi er fólk, hvar sem það er í heiminum, hvatt til þess að lesa upp, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota tungumálið til ánægjulegra samskipta. Líttu við á næsta bókasafni og hjálpaðu okkur að halda upp á daginn.

Líttu við á þínu bókasafni

Á Íslandi eru yfir 300 bókasöfn. Söfnin eru af ýmsum toga og þjóna bæði almenningi, námsmönnum og sérhæfðum verkefnum í stofnunum og einkafyrirtækjum. Á Íslandi eru mörg almenningsbókasöfn, skólabókasöfn, framhaldsskólabókasöfn, háskólabókasöfn, sérfræðisöfn og annarskonar sérhæfð bókasöfn. Líttu við á þínu bókasafni 8.sept.

 

 

Dagskrá bókasafnsdagsins

Bókasöfnin halda upp á bókasafnsdaginn hvert með sínu nefi. Bókasöfnin hvetja alla til að líta við á sínu safni í tilefni dagsins og gera sér glaðan dag og njóta þess sem bókasöfn bjóða upp á.  Hér eru dæmi um viðburði sem bókasöfnin hafa boðið upp á:

 • Upplestur fyrir börn/fullorðna
 • Gátur/spurningar með textum úr bókum þar sem giska á hvaða bók þetta er
 • Kaffi og bakkelsi
 • Ljóðaupplestur
 • Kynning á ákveðnum höfundum/bókaflokki
 • Opnir bókaklúbbar
 • Lifandi tónlist
 • Opin námskeið
 • Skoðunarferðir „baksviðs“
 • Bókmenntagöngur/bókmenntaumfjöllun
 • Sérstakar uppákomur/efni á vefsíðu í tilefni dagsins
 • Frí bókamerki/lestrardagbækur
 • Lestrarátak á safninu
 • Gefins bækur
 • Spurningakeppni – Libquiz
 • Safnamet
 • Skemmtun
 • Sýning á gömlum munum, bókum og fleiru tengdu fyrri árum bókasafnsins
 • Myndlistasýning
 • Bókmenntagetraun
 • Sektarlaus dagur
 • Viðhorfskannanir
 • Starfsmenn mæla með uppáhalds eða að þeirra mati merkilegum fræðibókum
 • Vísindalegar staðreyndir og/eða fáránlegu fróðleikur
Ritstjórn september 6, 2017 15:54