Menningarlegt stórslys – fyrirlestur í Sjóminjasafni

Fræðslufundir Vitafélagsins hefjast 13. janúar 2016 með fræðslufundi sem haldinn verður í Sjóminjasafni Reykjavíkur kl. 20.00.  Á dagskrá verða tvö fræðsluerindi þar sem sjónum er beint að minjum við sjávarströndina. Eins og undanfarið verður fluttur fyrirlestur um rannsóknir á strandmenningu og/eða fornleifum, ofan sjávar og neðan og síðan er fjallað um þær dýrmætu fornleifar sem hafið og hirðuleysið er að eyðileggja.

  1. Strandminjar í hættu

Oddgeir Isaksen er fornleifafræðingur og starfaði um árabil við rannsóknir hjá Fornleifastofnun Íslands. Í dag gegnir hann stöðu verkefnastjóra skráningarmála hjá Minjastofnun Íslands, en meðal verkefna á hans könnu eru minjar sem eru í hættu af náttúrunnar völdum og eru þar með taldar minjar meðfram strandlínu Íslands.

Fornleifar eru mikilvægar frumheimildir um sögu lands og þjóðar, ekki síður en fornritin og því er mikilvægt að hér sé rekin markviss minjavernd til að stemma stigu við eyðingu þessa heimildaflokks. Á undanförnum árum hafa ýmsir, bæði fræðimenn og áhugamenn um fornleifar, vakið athygli á eyðingu minja meðfram strandlínunni af völdum ágangs sjávar, sem virðist vera að aukast ef eitthvað er. Hefur verið kallað eftir mótvægisaðgerðum af hálfu yfirvalda til að stemma stigu við þessari geigvænlegu þróun. Oddgeir mun greina frá áætlunum um slíkar aðgerðir sem vonast er til að hægt verði að hrinda í framkvæmd á næstu árum, þar sem m.a. er ætlunin að virkja krafta áhugamanna í héraði við eftirlit með minjunum.

  1. Menningarlegt stórslys

Eyþór Eðvarðsson er áhugamaður um sögu þjóðarinnar og fornleifar.  Hann er formaður og einn af stofnendum Fornminjafélags Súgandafjarðar og hefur mikinn áhuga á því að verja þær strandminjar sem í dag eru að skemmast vegna ágangs sjávar. Hann hefur búið til fjölmörg myndbönd um fornleifarannsóknir á Íslandi og einnig um sjávarrof og fornminjar m.a. um Brunnaverkstöðina, Fjallaskaga, Hringsdal, Hænuvík, Breiðuvík, Keravík, Ingjaldssand, Gufuskála og Siglunes og Seley.  Eyþór stóð ásamt fleiri aðilum að ráðstefnu um þetta efni í vorið 2015.

Í erindinu mun hann segja frá ferð sem farin var síðastliðið sumar á flestar af þeim gömlu þekktu verstöðvum sem eru í kringum landið. Þar eru víða miklar fornminjar enda sýna rannsóknir að sjósókn var stunduð frá þessum verstöðum frá landnámi.  Ástand þessara fornminja okkar Íslendinga er vægast sagt skelfilegt og þær eru að eyðileggjast.  Við sem þjóð verðum að bregðast hratt við ef við ætlum ekki að láta þær eyðileggjast í briminu.  Landsig er vel greinanlegt á þessum verstu rofastöðum og brimið heggur í minjarnar þegar veður eru slæm.  Sýndar verða ljósmyndir af um 15 stöðum á landinu þar sem forfeður og formæður okkar þjóðar sóttu sjóinn.

 

Ritstjórn janúar 8, 2016 17:12