Myndasögusýning Gombri í Borgarbókasafninu í Grófinni

Myndasögusýning | Gombri

Myndasögusýning í myndasögudeild | Gombri

Menningarhús Grófinni, föstudag 6. janúar kl. 16

Elín Edda opnar myndasögusýningu um Gombra í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni, Tryggvagötu 15, föstudaginn 6. janúar klukkan 16:00.

Gombri er aðalsöguhetja myndasögunnar Gombra sem kom út 1. apríl 2016. Sagan fjallar um Gombra sem er orðinn leiður á drunganum sem umkringir hann og ákveður því að yfirgefa heimili sitt, Garðinn. Hann leggur af stað í langt ferðalag — staðráðinn í að snúa ekki aftur.

Á sýningunni má sjá fyrstu teikningar, skissur og blaðsíður úr Gombra. Auk þess verða nokkrar blaðsíður úr væntanlegri framhaldsbók Gombra, Gombri lifir, frumsýndar.

Elín Edda er 21 árs nemi á öðru ári í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Hún hefur fengist við teikningu og skriftir frá því hún man eftir sér. Gombri er hugarfóstursonur Elínar Eddu. Gombri birtist fyrst í teikningum hennar árið 2013 og síðan hafa þau fylgst að.

Elín Edda notar vatnsliti og blek við gerð Gombra. Henni finnst einlægni mikilvægust fyrir flæði textans og teikningarinnar. Í flæðinu verða oft óvæntar uppákomur. Teikningin á fyrst og fremst að vera frjáls og mistök eru leyfileg. Helst vill Elín Edda gera aðlaðandi myndir og texta sem gefur lesendum nýja sýn á einhvern hátt.

Ásamt Gombra hefur Elín Edda gefið út myndasöguna Plöntuna á ganginum í samstarfi við Elísabetu Rún árið 2014. Á sama tíma opnaði sýning í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu á blaðsíðum bókarinnar.

Auk þess kom fyrsta ljóðabók Elínar Eddu, Hamingjan leit við og beit mig, út hjá Partus Press í október síðastliðnum. Fyrir handritið að ljóðabókinni Tímasöfnun hlaut hún verðlaun úr Gullpennasjóði Menntaskólans í Reykjavík árið 2015.

Sýningarrýmið í myndasögudeild Borgarbókasafnsins í Grófinni er óhefðbundið og markmið sýninga þar er að vekja athygli á íslenskum myndasöguhöfundum og verkum þeirra. Að auki er hið hefðbundna bókasafnsrými myndasögudeildarinnar gert meira lifandi með því að hafa þar reglulegar myndasögusýningar.

Ritstjórn janúar 6, 2017 12:54