Myndlistarsýning – Hilmar Hafstein Svavarsson

Hilmar Hafstein Svavarsson er með málverkasýningu í Hannesarholti Grundarstíg 2, til 2. maí. Hilmar er fæddur 1940 og hefur daðrað við myndlistargyðjuna frá barnsaldri.

Hilmar hefur tekið þátt í samsýningum en þetta er fyrsta einkasýning hans og spannar 60 ára feril myndlistarmanns. Elstu myndina á sýningunni málaði hann 12 ára gamall, önnur var í vinnslu í fimmtíu ár. Hilmar vann við loftskeytastörf og verslunarrekstur um ævina en stundaði alla tíð myndgerð. Hann tók fjöldan allan af námskeiðum í Myndlista- og handíðaskólanum og Myndlistaskóla Kópavogs, auk þess sem hann sótti einkatíma hjá listamönnum á borð við Guðmundu Andrésdóttur, Sigfús Halldórsson, Hring Jóhannesson og Sverri Haraldsson. Grafíklist, skrautritun, myndskreytingar í bækur og tímarit og auglýsingar hafa einnig verið viðfangsefni Hilmars sem og húðflúr (tattoo) sem hann lærði hjá Helga Aðalsteinssyni. Listfengi Hilmars fær einnig að njóta sín í fluguhnýtingum.

Ritstjórn apríl 20, 2018 12:09