Myrkraverk á Kjarvalsstöðum

Sýningin er uppfull af dularfullum og spennandi verkum sem kveikja á ímyndunaraflinu einmitt á myrkasta tíma ársins og verk eftir þessa ólíku listamenn mynda skemmtilega og dýnamiska heild.

Hér mætast ólíkar kynslóðir listamanna:
Alfreð Flóki (1938–1987)
Ásta Sigurðardóttir (1930-1971)
Jóhanna Bogadóttir (1944)
Kristinn Pétursson (1896–1981)
Sigga Björg Sigurðardóttir (1977)
Sigurður Ámundason (1986)

Heiti sýningarinnar, Myrkraverk, er hálfgerður orðaleikur sem sprettur upp úr þeim árstíma sem hún stendur yfir. Skammdegið er alltumlykjandi, sá tími árs þegar við skynjum dag frá degi hvernig myrkrið víkur smám saman fyrir birtu hækkandi sólar. Það sem áður var hulið tekur hægt og sígandi á sig skýrari mynd. Þá á heitið ekki síður við inntak þeirra verka sem eru  á sýningunni. Þar eru verk listamanna sem hafa sótt sér innblástur úr þjóðsögum og skáldskap eða skapað sinn eigin huliðsheim tákna og mynda. Hún er uppfull af dularfullum og spennandi myndum sem kveikja á ímyndunaraflinu einmitt á dimmasta tíma ársins. Sumar vísa til kunnra sagna sem skráðar hafa verið en aðrar hafa mótast með sjálfstæðum hætti í frásagnarheimi listamanna. Hvort tveggja endurspeglar mannlega tilvist, samskipti fólks, tilfinningar og hugarástand. „Myrkraverk“ sýningarinnar eru flest unnin á pappír, teikningar og grafíkverk – eða ef til vill væri hér nærtækara að nota hið alíslenska en lítt notaða hugtak, svartlist.

Sýningarstjóri þessarar sýningar er Markús Þór Andrésson. Hann verður með leiðsögn á sýningunni sunnudaginn 18.mars klukkan 14.

Ritstjórn mars 16, 2018 17:01