Námskeið Jóns Björnssonar um mógúla

Fyrri hluti námskeiðs Jóns Björnssonar, sálfræðings og rithöfundar, um Mógúla  verður haldinn í dag, fimmtudaginn 26. febrúar kl. 17:15 í Félagsmiðstöðinni, Hæðargarði 31. Aðganseyrir er kr. 500.  Lýsing Jóns á mógúlunum er þannig:

Á tímabilinu frá 1526 fram til 1858 réðu svonefndir mógúlar fyrir Indlandi og höfðu aðsetur í Delhi. Orðið er afbökun af „mongólí“ því hinn fyrsti þeirra rakti ættir sínar til Ghengis Khan og Timurlane. Fyrstu sex keisararnir sem ríktu í röð voru allir frábærir og glæsilegir stjórnendur – mikilhæfir bæði í kostum sínum og göllum. Þetta voru miklir herkonungar, en ekki síður unnendur lista, og kunnastir eru þeir fyrir byggingarnar sem reistar voru á veldistíma þeirra; rauða virkið í Delhi og þó fyrst og fremst Taj Mahal, sem einn þeirra reisti sem grafhýsi yfir konu sína. Ættin leið undir lok eftir 180 ára glæsilega byrjun ( varla önnur valdaætt sem entist jafn vel  nema Medici-ættin í Flórens) og það var meðal annars Austur indverska verslunarfélagið enska sem gróf undan veldinu. Seinna eða 1858 varð svo Indland bresk nýlenda til 1947.

Síðari hluti námskeiðsins verður svo á sama stað og tíma  3.mars.

 

 

Ritstjórn febrúar 26, 2015 09:44