Ókeypis jazztónleikar í Gerðubergi og Spönginni

Jazz í hádeginu | Franskir kvikmyndatónar

Borgarbókasafnið | Menningarhús Gerðubergi
Föstudaginn 10. febrúar kl. 12.15 – 13.00

Tónlistarhjónin Vignir Þór Stefánsson píanóleikari og Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir söngkona eru ekki innfæddir Grafarvogsbúar en hafa þó verið búsett í hverfinu lengi. Á febrúartónleikum Jazz í hádeginu flytja þau ásamt Leifi Gunnarssyni lög eftir franska kvikmyndatónskáldið og jazzpíanistann Michel Legrand, í menningarhúsinu í Gerðubergi á föstudegi og á laugardeginum í heimahverfi sínu, í menningarhúsinu í Spönginni í Grafarvogi.

Michel Legrand er margverðlaunaður franskur jazzpíanisti og tónskáld. Þrátt fyrir að vera þekktastur fyrir framlag sitt til kvikmyndatónlistar liggja eftir hann nokkrar plötur með jazzmúsík og meðspilarar hans ekki af verri endanum. Þar má finna nöfn eins og Miles Davis, John Coltrane, Bill Evans, Phil Woods og Ray Brown. Legrand á langan feril að baki en hann hefur komið að vinnu við um hundrað hljóðrit í ýmsum stílum. Tónlistin sem flutt verður á tónleikunum eiga það sameiginlegt að vera sönglög, sum hver titillög þekktra kvikmynda. Þar á meðal verður fluttur fyrsti stóri smellur Legrands, „La Valse des Lilas“ eða „Once Upon a Summertime“ sem kom út fyrst árið 1950 en er í dag þekkt sem jazz-standard.

Aðgangur á tónleikana er ókeypis og allir velkomnir.  Sömu tónleikar verða haldnir daginn eftir, laugardaginn 11.febrúar í menningarhúsinu Spönginni Grafarvogi.

Ritstjórn febrúar 7, 2017 17:02