Söngur og stuð í Hannesarholti um helgina

Það verður mikið sungið í Hannesarholti um helgina. Boðið er uppá tvo viðburði, annan á laugardag, en hinn á sunnudag. Hérna fyrir neðan eru tilkynningar sem Lifðu núna fékk um þá.

Síðdegissöngvar með Svavari Knúti

Laugardaginn 12. janúar kl. 17 í Hannesarholti

Svavar Knútur söngvaskáld og sagnamaður heldur tónleika í Hannesarholti 12. janúar næstkomandi kl. 17.00. Svavar Knútur, sem hefur löngu getið sér gott orð fyrir hlýlega og einlæga framkomu, gaf nýverið út plötuna Ahoy! Side A, en lög af henni hafa notið mikillar velþóknunar bæði landans og útlandans undanfarna mánuði. Platan er einmitt plata vikunnar á Rás 2 þessa vikuna.

Á tónleikunum mun Svavar Knútur leika lög bæði af þessari nýútkomnu plötu og eldra efni í bland. Þá mun Svavar segja sögur og gera sitt besta til að kitla hjarta- og hláturtaugar viðstaddra. Aðgangseyrir er 2.500 krónur og miðasala er á tix.is, en börn fá ókeypis í fylgd með foreldrum eða öfum og ömmum. Skráið börn með því að senda póst á vidburdir@hannesarholt.is til að hægt sé að taka frá sæti fyrir þau.

SYNGJUM SAMAN, HÖFUM GAMAN: 

Sunnudaginn 13. janúar kl. 14 í Hannesarholti

Fáum okkar góða Stuðmann, Jakob Frímann, til að leiða okkur gegnum tímann. Söngvar frá lýðveldisstofnun til vorra daga við allra hæfi (á aldrinum eins til hundraðogeins).

Jakob leiðir fyrstu söngstund ársins, sem er eins og jafnan í Hannesarholti, frítt fyrir börn í fylgd með fullorðnum sem greiða 1000 krónur inn. Textar á tjaldi og allir taka undir með sínu nefi í klukkustund. Syngjum saman er alla jafna tvisvar í mánuði yfir vetrarmánuðina. Allir velkomnir.

 

Ritstjórn janúar 9, 2019 16:28