Stærsta sýning á íslenska samtímamálverkinu

Sýningin Nýmálað 2 verður opnuð á Kjarvalsstöðum laugardaginn 28. mars kl. 16 þar sem sýnd verða verk 60 listmálara. Þetta er annar hluti sýningarinnar Nýmálað en fyrri hluti hennar opnaði í Hafnarhúsinu í febrúar þar sem gefur að líta verk eftir 27 listamenn.

Sýningin er yfirlit um stöðu málverksins hér á landi en öll verkin eru frá síðustu tveimur árum. Svo víðtæk úttekt á íslensku samtímamálverki hefur ekki verið gerð áður. Sýningarstjórar eru Hafþór Yngvason og Kristján Steingrímur Jónsson. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri opnar sýninguna.

Á síðustu árum hefur verið mikil gróska í málaralist víða um heim. Nýjar áherslur og fjölbreytnin í málverki samtímans hefur vakið eftirtekt. Ísland er engin undantekning. Listamenn á öllum aldri, sem aðhyllast ólíkar liststefnur og hugmyndafræði, hafa valið málverkið sem sinn helsta listmiðil. Tilgangurinn með sýningunni er að gefa yfirlit um stöðu málverksins á hér á landi.

Listsafn Reykjavíkur stendur fyrir viðamikilli dagskrá í tengslum við sýninguna. Þar verður m.a. boðið upp á nokkur námskeið í listmálun fyrir unglinga undir handleiðslu listamanna á sýningunni. Málstofa verður haldin í tengslum við sýninguna og listamenn bjóða gestum upp á hádegisleiðsagnir

Ritstjórn mars 25, 2015 10:38