Teppi á veggnum – sýning í Mosfellsbæ

Listasalur Mosfellsbæjar minnir á sýninguna Teppi á veggnum eftir Röndu Mulford. Randa er bandarískur textíllistamaður sem hefur einbeitt sér að bútasaumslist. Á sýningunni eru 16 verk sem eru ólík hvað varðar efnisval, úrvinnslu og tækni og sýna glöggt þá miklu fjölbreytni sem bútasaumur býður upp á. Teppi á veggnum er meðal allra vinsælustu sýninga Listasalar Mosfellsbæjar. Ánægja og undrun sýningargesta er áberandi enda eru verkin hvert öðru glæsilegra og ólík þeim hefðbundnu bútasaumsteppum sem fólk á að venjast. Þetta er sýning sem situr í manni, sýning sem maður mun framvegis alltaf tala um þegar einhver minnist á bútasaum eða textíllist yfirleitt.

 

Sýningin er opin kl. 12-18 á virkum dögum og kl. 12-16 á laugardögum. Síðasti sýningardagur er 5. júlí.

 

 

Ritstjórn júní 25, 2019 14:59