Þjóðhátíðargleði á Árbæjarsafni

 

Fallegir þjóðbúningar verða í aðalhlutverki á Árbæjarsafni laugardaginn 17. júní venju samkvæmt og eru gestir hvattir til að mæta í eigin búningum. Fjallkonu safnsins verður skautað kl. 14 og geta gestir fylgst með því hvernig faldur, faldblæja og spöng eru sett upp og borin við skautbúning.

Meðlimir Fornbílaklúbbsins munu safnast saman á safninu og verða með bíla til sýnis á safninu frá kl. 13-16.

Ýmislegt verður um að vera á safninu þennan dag. Á baðstofuloftinu verður spunnið á rokk og bakaðar lummur í eldhúsinu. Í safnhúsunum má sjá fjölmargar sýningar eins og Neyzlan – Reykjavík á 20. öld (Lækjargata 4), Hnappheldan – brúðkaup á Árbæjarsafni (skrúðhúsið) og Hjáverkin (Kornhúsið). Fyrir yngstu kynslóðina er tilvalið að heimsækja sýninguna Komdu að leika! en þar er mikill fjöldi leikfanga frá ýmsum tímum sem krökkunum er frjálst að leika sér með. Auk þess er fjölbreytt úrval af útileikföngum til staðar sem krökkum býðst að nota að vild, svo sem húla-hringir, snú-snú, kubb og stultur.

Að vanda verður heitt á könnunni í Dillonshúsi.

 

Ritstjórn júní 16, 2017 13:18